144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

TiSA-viðræður og heilbrigðisþjónusta.

[10:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. En mér finnast það nú allnokkur tíðindi að hæstv. ráðherra skuli hafa lesið um það í fréttum rétt eins og ég að tillaga sem snýst um að fella heilbrigðisþjónustu undir samningaviðræður TiSA, sem snúast um frjáls þjónustuviðskipti, og að utanríkisráðuneytið hafi þá lýst yfir afstöðu Íslands í málinu — ég er sammála þeirri afstöðu, ég tek það fram. En mér finnast það allnokkrar fréttir að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi ekki einu sinni verið upplýstur um þá afstöðu að Ísland ætli ekki að taka þátt í þeim málum, það eru ákveðin tíðindi hér, virðulegi forseti.

En það bendir okkur á annað og það er hversu undarlegt það er að Ísland standi í viðræðum um þjónustuviðskipti sem svo mikil leynd hvílir yfir að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar viti ekki að verið sé að ræða þeirra málaflokka innan viðræðnanna. Almenningur í landinu hafi mjög litlar upplýsingar um hvað er í gangi og svörin sem fást frá utanríkisráðuneytinu eru fyrst og fremst þau að leynd (Forseti hringir.) muni hvíla yfir öllu þar til samningur hefur verið undirritaður. Þetta finnst mér merkilegt, (Forseti hringir.) satt að segja.

Ég vil þó að lokum spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) hvort hann er þá ekki sammála þeirri afstöðu sem upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins hefur kynnt fyrir hönd þjóðarinnar og hans.