144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

tollamál á sviði landbúnaðar.

[10:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á skýrslu um tolla sem átti fyrst og fremst að gera tvennt; annars vegar að fara yfir þau tækifæri sem felast í möguleikum Íslands þar sem stefna ríkisstjórnar Íslands er að auka fríverslunarsamninga við sem flest lönd í heiminum og hins vegar að fara yfir þá tollvernd sem íslensk búvara stendur frammi fyrir í ljósi reynslunnar af búvörusamningum sem búnir eru að vera nokkuð lengi og eru aðdragandi að vinnu við nýja samninga.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, að gagnkvæmir samningar um tolla snúast oft um mjög sérkennilega hluti þar sem menn og lönd sækjast eftir gagnkvæmum niðurfellingum eða lækkunum á tollum og sú vinna er alltaf í gangi. Skýrslan miðaðist meðal annars við það að skýra þá stöðu sem Ísland er í vegna fyrirhugaðra fríverslunarsamninga við fleiri ríki.

Þess má að geta að um helgina tók ég þátt í þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Grænlandi þar sem verið var að fjalla um fríverslun innan Vestnorræna ráðsins við annars vegar Grænlendinga og hins vegar Færeyinga, eins og við þekkjum í gegnum Hoyvíkursamninginn, um hugsanlega möguleika á því að setja hér upp fríverslunarsvæði á vestnorræna svæðinu o.s.frv. Það eru mjög spennandi hlutir en þeir snúast alltaf um gagnkvæma hluti. Menn þurfa að opna í báðar áttir.

Af því að hv. þingmaður minntist á Evrópusambandið þá höfum við verið í viðræðum við Evrópusambandið um gagnkvæmar tollalækkanir og að fella niður tolla, en því miður hefur Evrópusambandið frestað þeim fundum núna í tvígang sem ellegar áttu að eiga sér stað í haust, meðal annars vegna þess að í haust voru kosningar til framkvæmdastjórnar, en hugsanlega líka vegna einhverra annarra þátta.