144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

tollamál á sviði landbúnaðar.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að umræðan um tollkvóta og fyrirkomulag þeirra er dálítið sérkennileg og í gegnum tíðina hefur stjórnsýslan óskað eftir tillögum frá hagsmunaaðilum. Þær hafa ekki borist, en tillögurnar eru svo mótsagnakenndar og hjá ólíkum aðilum. Þess vegna hafa menn farið mismunandi leiðir.

Sá sem hér stendur hefur lýst því yfir að hann sé tilbúinn að skoða það hvenær sem er að gera það með skynsamlegri hætti en gert er í dag og athuga hvort hægt sé að tryggja það einhvern veginn að meira jafnræði gildi en raun ber vitni í dag. Sú leið sem farin er og OECD telur skilvirkasta þar sem fjármagnið skiptir máli getur hugsanlega haft þær afleiðingar, eins og við sáum á síðasta ári, að tollkvótarnir hafa farið hækkandi vegna kostnaðar sem þeir sem kaupa þá leggja síðan á vöruna þegar til landsins er komið.

Frá mínum bæjardyrum séð er alveg sjálfsagt mál að endurskoða fyrirkomulagið. Því hefur líka verið varpað yfir til hagsmunaaðilanna en þeir hafa ekki komið með skýr svör um hvað þeim finnist skynsamlegast að gera vegna þess að þar er um að ræða mjög ólíka hagsmuni.