144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Aftur ítreka ég spurninguna um tímasetningar. Getum við fengið að vita hvað er fyrirséð eða hvort hæstv. ráðherra hefur hugmynd um hvenær hann gæti sagt okkur eitthvað um tímasetningarnar? Það er yfirleitt hægt að gera þó það.

Varðandi þessa þrjá þætti, já, fyrirsjáanleiki þarf klárlega að vera til staðar. Ráðherra nefnir að leiðin sem hann er að vinna með sé þá samningaleið. Samningar versus einhvers konar nýtingarréttindi eru eignarréttarvarin og þar af leiðandi mjög sterk vernd fyrir þá og tryggir þennan ákveðna stöðugleika og fyrirsjáanleika sem ráðherra kallar eftir. Þá vil ég spyrja ráðherrann: Þurfa ekki að vera föst tímamörk þar sem samningarnir falla úr gildi? Kvótinn var á sínum tíma gefinn ákveðnum aðilum sem höfðu verið að veiða í þrjú ár og sagt: Það er vegna þess að við settum kvótann, við takmörkuðum það sem mátti veiða, í staðinn fáum við þessi réttindi til að veiða, þessa einokun frá ríkinu, ríkiseinokun, til að veiða. Á það að líða undir lok núna með nýju frumvarpi hæstv. ráðherra? (Forseti hringir.) Þá verða einhverjir samningar í einhvern ákveðinn tíma. Þarf ekki að tryggja að þessir samningar falli sjálfkrafa úr gildi?