144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. fyrirspyrjanda að þeir sem höfðu stundað sjó á Íslandi í gegnum áratugi eða aldir hafi fengið eitthvað gefins. Þegar kvótakerfið var sett á héldu allir þeir sem voru í þeim rekstri honum eðlilega áfram og voru látnir taka á sig nauðsynlega hagræðingu sem þá þurfti að gera. Það var enginn tilbúinn til þess og allur sjávarútvegur rekinn með tapi eins og við þekkjum. Núna erum við sem betur fer á allt annarri blaðsíðu með okkar öflugustu atvinnugrein. (Gripið fram í.)

En varðandi spurninguna eru útgerðaraðilar ekki eigendur, þeir eru bara hagaðilar, hafa réttinn til að nýta. Það er mjög mikilvægt í frumvarpinu að skýra réttindi eigandans, þjóðarinnar, og þessi ákvæði sem snúa þá að uppsögn samninga og annað eru nauðsynlegur hlutur af frumvarpinu. Þetta er heildarpakki sem snýr að því að leysa þau verkefni sem menn hafa horft til í nokkurn tíma. Ég vona, og er búinn að vona býsna lengi, að það sé möguleiki að taka þetta til gáfulegrar og efnislegrar umræðu í þinginu. (Forseti hringir.) En til þess að það náist víðtæk sátt um málið verða allir aðilar að vera tilbúnir að horfa á það sem þeir hafa verið að vinna að um nokkurt skeið og verða að hafa kjark til að þora að ljúka málinu.