144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

lífeyrismál.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Varðandi endurskoðun á lífeyriskerfinu sem staðið hefur yfir í fjármálaráðuneytinu, þá er sú vinna enn í gangi og gengur fyrst og fremst út á það að finna leiðir til að jafna mun milli kerfanna, þannig að réttindaávinnsla í opinbera geiranum verði áþekk því sem gerist á almenna markaðinum.

Til þess þarf að taka á nokkrum undirliggjandi vandamálum, í fyrsta lagi hinum ófjármagnaða hluta skuldbindinga ríkisins. Í öðru lagi þurfum við að fara í þá meiri háttar kerfisbreytingu að hætta með jafna lífeyrisréttindaávinnslu og færa okkur yfir í aldurstengda ávinnslu. Það þarf að taka á bakábyrgð ríkisins á opinberu sjóðunum. Þau félög sem ríkið hefur átt í samtali við vilja jafnframt að samhliða svona breytingum verði farið ofan í saumana á því hvernig kjörin almennt eru hjá opinberum starfsmönnum borið saman við almenna markaðinn ef lífeyrisréttindin eiga að verða jöfn.

Þessi vinna hefur tekið afar langan tíma. Það sem liggur þó fyrir, óháð niðurstöðu þeirrar vinnu, er að við getum ekki beðið mikið lengur með að grípa til aðgerða vegna ófjármagnaðra skuldbindinga. Við höfum verið að ýta því á undan okkur á haustin undanfarin ár að taka á þeim vanda, og varðandi B-deildina þurfum við að fara að hefja sjóðsöfnun til að forða þessum stóru gjalddögum sem ella bíða okkar eftir um það bil tíu ár.

Varðandi séreignarsparnaðinn er mjög ánægjulegt að sjá hve miklu hann hefur skilað. Ég sé fyrir mér að sú leið sem við höfum boðið upp á, að nýta skattalegt hagræði af því að spara og leggja til hliðar — við þurfum að framlengja það (Forseti hringir.) til lengri framtíðar til að gera fólki kleift að eignast húsnæði. En hvort það verður (Forseti hringir.) á kostnað séreignarsparnaðarkerfisins er ótímabært að segja.