144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ég þakka henni sérstaklega fyrir að vitna til reynslunnar frá Danmörku. Ég er hrædd um, miðað við það sem ég hef séð, að almennt sé reynslan sú að þetta sé enn frekari jaðarsetning á fátæku fólki.

Frjálshyggja síðustu áratuga hefur leitt til þess að samfélögum er orðið tamara að kalla þá fátækustu til ábyrgðar á meðan þeir ríku verða ríkari. Þetta mál er dæmi um það. Þessi hugmyndafræði hefur verið dulbúin með jákvæðum formerkjum eins og virkni, þátttöku og hvatningu. Og hver vill ekki vera virkur þátttakandi, hver vill ekki líta á hvatningu sem eitthvað jákvætt og hver vill ekki líta á það sem jákvætt að einstaklingar taki ábyrgð á sjálfum sér? Við getum öll verið sammála um það en okkur greinir mjög á um leiðirnar.

Varðandi skilyrðingar um virkni þá þurfum við að hafa í huga að hér erum við ekki eingöngu að fjalla um mjög alvarlegar breytingar á fjárhagsstuðningskerfinu. Þetta mun síðan teygja sig yfir í önnur kerfi. Og það er það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og varðar t.d. stöðu örorkulífeyrisþega: Er ekki hætta á að skilningur á aðstæðum fólks verði minni og minni og kröfurnar verði meiri og meiri á þá sem eru líka í þeirri stöðu að vera ofurseldir kerfinu vegna framfærslu og geta því illa varið rétt sinn?