144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég held að þetta geti nefnilega einmitt verið raunin, ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að við þurfum að hafa varann á og hugsa um hvaða áhrif þetta getur haft út í önnur kerfi. Ein af ástæðunum fyrir því að ég hef verið hugsandi yfir þeim breytingum sem verið er að skoða í almannatryggingakerfinu, en talað hefur verið um starfsgetumat fyrir öryrkja, er hvort það kunni að leiða til neikvæðrar skilyrðingar, virkniskilyrðingar einmitt. Það gildir auðvitað það sama með öryrkja að við eigum að stuðla að samfélagi þar sem þeir geta tekið þátt á vinnumarkaði, helst til jafns við aðra. En við megum heldur ekki gera fólk í jaðarsettri stöðu ofurselt öflum vinnumarkaðarins. Reynsla síðustu vikna hefur sýnt það, eins og sannaðist í strætómálinu eða máli Ferðaþjónustu fatlaðra þar sem fólki með skerta starfsgetu var sagt upp og því bauðst einungis endurráðning í fullu starfshlutfalli, en það hafði áður verið í hálfu starfi.

Ég trúi því og treysti að til þess að kerfi eins og starfsgetumat eigi að geta virkað í alvörunni fyrir öryrkja þá þarf ansi margt á vinnumarkaðnum að breytast. Viðhorf aðila vinnumarkaðarins til vinnuframlags fatlaðs fólks verður að breytast þannig að fatlað fólk fái í raun vinnu en verði ekki bara skilyrt af einhverju kerfi (Forseti hringir.) til að sækja um vinnu.