144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eru þetta ekki einmitt helstu gallarnir við þær breytingar sem verið er að leggja til hér? Við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hvað verður um það fólk sem fær ekki aðstoð og hvernig við eigum að safna upplýsingum um það. Getum við nýtt okkur reynslu sveitarfélaga sem hafa gert tilraunir í þessu? Ég hef spurt út í þetta í Hafnarfirði og þar eru engar upplýsingar um hvað varð um það fólk sem datt út hjá þeim.

Ríkisstjórnin og stjórnarliðar eru nýbúin að samþykkja styttri bótatíma til atvinnuleysisbóta. Því var skellt á með mjög stuttum fyrirvara. Við vitum muninn á atvinnuleysisbótum og síðan framfærslu sveitarfélaganna. Atvinnuleysisbæturnar eru réttindi sem fólk hefur áunnið sér og þar gilda önnur lögmál, en það eru betri bætur eða hærri upphæð sem fólk fær í gegnum atvinnuleysisbætur en fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.

Nú hefur það gerst að til þess að spara í ríkissjóði, spara 1 milljarð, var bótatíminn styttur úr þremur árum í tvö og hálft og gengið þar inn í þríhliða samkomulag, ríkið braut það, á milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaga og ríkisins. Til viðbótar er verið að setja inn þetta sem hér er verið að leggja til, leyfi til skerðingar. Síðan á að gefa út reglugerð um einhverjar viðmiðunarfjárhæðir en í sjálfu sér fá sveitarfélögin áfram frjálsar hendur hvað þetta varðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji þetta ekki svolítið lýsandi fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar þegar hún horfir á veiðileyfagjöld og auðlegðarskatt annars vegar og síðan (Forseti hringir.) hvernig á að ná út peningum af fátækasta fólki landsins.