144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hér hafi hv. þm. Oddný G. Harðardóttir dálítið hitt naglann á höfuðið með því að draga upp þær andstæður sem hæstv. ríkisstjórn er í rauninni að koma á í samfélaginu, þ.e. annars vegar að létta alls konar skyldum og álögum af þeim efnameiri og þeim sem eru í færum til þess að leggja eitthvað til samfélagsins og hins vegar það að þrengja enn að aðstæðum þeirra sem búa við hvað lökust kjör í samfélagi okkar. Hér er að mínu mati farið alveg kolrangt að við það hvernig á að reka eitt stykki samfélag, því að sjálfsögðu eiga þeir sem hafa getuna að vera þeir sem leggja til og leggja þá til þeirra sem bera minna úr býtum. Síðan væri vonandi í góðum heimi hægt að búa þannig um hnútana að félagslega kerfið virkaði þannig að það gæti ýtt fólki upp, svo að það síðar meir kæmist í þá stöðu að vera í hópi þeirra sem leggja til samfélagsins. Hér er því alveg farin kolröng leið með því að þrengja að þeim hópi sem er hvað verst settur.