144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég deili með henni þeim áhyggjum af því hvað verður um þessa einstaklinga. Það gildir eiginlega einu hversu fáir þeir eru en þetta eru manneskjur sem fara á fætur á morgnana og þurfa að halla sér einhvers staðar eftir daginn og þurfa að borða og komast í gegnum dagana, einn dag í einu, en þurfa að komast í gegnum dagana.

Það er meira að segja til málsháttur á íslensku, sem mér er sagt að sé ekki til í öðrum tungumálum, sem er „einhvers staðar verða vondir að vera“ vegna þess að við höfum haft þá hugsun á Íslandi óháð því hver saga fólks er, hver bakgrunnur þess er, hver afstaða þess er til úrræða, eins og það er kallað í félagsþjónustuorðaforðanum í dag, án þess að það vilji jafnvel úrræði, að það þurfi samt að eiga rétt á því að vera til. Það sem veldur mér áhyggjum við þetta mál er hvað nálgunin er kuldaleg. Hún er eiginlega búin að strika algjörlega út þennan mannlega þátt. Ég vil því spyrja hv. þingmann, af því að ég hef verið að skoða pappírana sem eru að koma hérna frá velferðarvaktinni, sem eru góðir: Hvernig getur farið saman að leggja fram stefnu þar sem talað er um mikilvægi þess að útrýma fátækt og á sama tíma leggja til að þessi hópur, þessi fátæki hópur, sé beittur þvingunum og hótunum til að haga sér með einhverjum þeim hætti sem er stjórnvöldum þóknanlegur?