144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina og jafnframt mjög góða ræðu í þessu máli. Auðvitað fer þetta ekki saman, þetta er svolítið eins og geðklofa stefna einhvern veginn. Mér finnst það einkennandi fyrir mörg stefnumál í þessum málaflokki. Maður verður til dæmis að horfa á þessi mál í gríðarlega erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði þar sem virðist skorta allan pólitískan vilja til að bregðast við aðstæðunum og kringumstæðunum sem eru núna. Það er neyðarástand og eins og kom fram í andsvari frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur er það þannig að þegar samfélag lendir í fullkomnu hruni eins og við lentum í skapast auðvitað gríðarlega mikið atvinnuleysi og vissulega er atvinnuleysi staðbundið og ólíkt eftir svæðum. Svo minnkar það og kannski verða einhverjir eftir sem fá ekki atvinnu og einhver ástæða er fyrir því. Oft hefur það í raun og veru ekki með neitt annað að gera en á hvaða aldri fólk er eða fólk getur ekki tekið hvaða vinnu sem er af því að það er til dæmis með börn.

Ég veit að til eru önnur úrræði sem eru miklu meiri hvataúrræði til virkni og virknin er oft ekki bara bundin, maður verður oft að ná fólki í virkni sem snýr ekki endilega að atvinnu heldur getur það verið starfsþjálfun eða aukin menntun. Það eru ýmis slík úrræði í boði hjá Vinnumálastofnun þannig að mér finnst þessi leið ekki boðleg. Ég vil ekki búa í samfélagi sem skapar (Forseti hringir.) svona lög.