144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dálítið gaman að fá tækifæri til þess að skiptast hér á hollráðum og reynslu í uppeldismálum. En ég held að það þurfi ekki mig til, við erum hér með „pedagóga“ víðar í þingsalnum og það vill nú svo skemmtilega til að það eru þó nokkrir kennaramenntaðir sem taka þátt í þessari umræðu. Það er kannski ekki tilviljun að straumar og stefnur í uppeldis- og kennslufræðum og öllum þeim fræðum sem lúta að samskiptum við fólk eru nú að hverfa frá refsistefnu til þess að hvetja fólk til dáða, að horfa til þess sem fólk getur en ekki til þess sem það getur ekki, að horfa til þess hvar styrkleikar fólks liggja en ekki hvar veikleikar þess liggja, að horfa til þess að allir geta eitthvað en enginn getur allt. Það er leiðarljós sem gildir í þessu eins og öllu öðru, að það er verkefni sveitarfélags að hjálpa þeim eða þeirri sem komin er þar í lífinu að vera á bótum hjá félagsþjónustu sveitarfélags, að styrkja sjálfsmyndina og lifa með reisn. Gerir maður það með því að draga úr líkum á því að viðkomandi fari saddur að sofa? Gerir maður það með því að draga úr líkum á því að viðkomandi eigi föt til skiptanna? Gerir maður það með því að draga úr líkum á því að viðkomandi geti farið í klippingu og geti mætt á fundinn hjá úrræðafulltrúanum sínum þannig að honum líði eins og manni sem hittir mann en ekki eins og þiggjanda sem hittir veitanda?