144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér koma í hug upplýsingar sem ég fékk fyrir nokkrum árum um þá nálgun sem var notuð í einhverjum sveitarfélögum í Finnlandi sem snerist um að nota sköpun og menningu sem félagslegt úrræði, þ.e. að opna í staðinn fyrir hina hefðbundnu nálgun leið tjáningar og sköpunar sem skref í átt að raunverulegu sjálfstrausti og virkni. Mér finnst það til fyrirmyndar. Ég hef oft hugsað um þetta síðan. Það þarf að tvinna og tengja betur saman menningu, virkni og félagsleg úrræði. Eitt af því sem er kannski allra mikilvægast í þessu er að tryggja samfélag án aðgreiningar þannig að það séu ekki úrræði fyrir „þetta fólk“ heldur snúist það um raunverulega þátttöku í samfélaginu öllu eins og samfélagið allt vill vera, þ.e. að við séum ekki með námskeið, úrræði, virkniúrræði o.fl. fyrir þetta fólk þannig að það geti síðan að uppfylltum þeim skilyrðum sem við hin setjum tekið þátt í okkar samfélagi. Þessi aðskilnaðarstefna er líka stefna sem er til þess fallin á löngum tíma að drepa niður frumkvæði. Þetta er flókið mál. En það er nákvæmlega sama hugmyndafræðin þarna eins og hugmyndafræðin sem ég og hv. þingmaður deilum að því er varðar innflytjendur, að því er varðar fólk með fötlun og (Forseti hringir.) alla þá sem eru oftar en ekki jaðarsettir í samfélaginu. Það er áskorunin í raun.