144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Markaðsvæðing. Nú er markaðurinn ágætur í að leysa ýmislegt en það er mjög hættulegt þegar blind trú á markaðslausnir veldur alvarlegum velferðarvanda og dregur úr réttindum og kjörum fólks.

Ég vil taka dæmi. Nýlega voru ræstingakonur reknar úr Stjórnarráði Íslands. Ræstingarnar voru boðnar út og kjörin fyrir launafólk eru lakari. Nýlegar var ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk boðin út. Tvær fatlaðar konur sem unnu við þjónustuna misstu vinnuna. Þarna eru láglaunastéttir í nokkuð viðkvæmri stöðu í þeirri aðstöðu að stjórnvöld taka ákvarðanir sem beinlínis svipta fólk atvinnuöryggi. Það eru konur úr þessum hópi sem munu fyrst og fremst líða fyrir þessa löggjöf. Ég hvet til þess að í stað þess að við mætum þeim sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda af myndugleik og köllum svo til ábyrgðar þá sem stjórna vinnumarkaðnum svo að vinnumarkaðurinn haldi ekki áfram að verða óöruggari og óöruggari. Við tryggjum heldur réttindi og öryggi launafólks í stað þess að láta vatna undan störfunum og skilyrða svo fólk til virkniúrræða.