144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér er auðvitað alveg ljóst að atvinnuleysisbótakerfið og það tímabil er annars eðlis, og ég kom nú reyndar inn á það, held ég, í annarri hvorri ræðu minni um þetta mál. Þar á meðal þess vegna þarf að skoða með allt öðrum augum þá möguleika sem eru til þess að ýta við fólki á atvinnuleitarskránni, hafi það ekki sinnt úrræðum o.s.frv. Það er jú fólk sem er nýlega komið út af vinnumarkaði og er í allt annarri stöðu en margir í þessum hópi sem verða að reiða sig á framfærslu frá sínu sveitarfélagi.

Engu að síður er það þannig, og ég held að ég þekki dæmi þess frá öðrum löndum, að þessi skil eru ekki svona skörp, ekki svona hnífskörp, að það sé annars vegar einhver réttur sem tilheyrir því að hafa verið á vinnumarkaði sem deyi út og síðan bíði ekkert nema fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Ef ég man rétt þá er danska kerfið í miklu meiri áföngum og reynt að halda utan um menn á allri leiðinni.

Ég tel að ríki og sveitarfélög ættu einmitt að ræða það: Þarf þetta ekki að vera eitthvert áfangaskipt eða þrepaskipt ferli þar sem ekki koma þessi skörpu og dapurlegu skil þar sem þetta breytir auðvitað talsvert um eðli? Annars vegar er réttur sem maður á til stuðnings ef maður hefur tapað vinnunni og af því að maður var á vinnumarkaði og hins vegar það að manns bíði ekkert annað og maður eigi engin önnur úrræði en að snúa sér til sveitarfélagsins um fjárhagsframfærslu eða aðstoð. Væri til dæmis ekki hægt að hafa það þannig að í lok hins eiginlega atvinnuleysisbótatímabils tæki við millibilsástand þar sem unnið væri með málin og hinu væri þá ýtt lengra inn í framtíðina ef ekkert annað væri í boði að lokum en þessi fjárhagsaðstoð? Þá er ég í og með að horfa til þess hversu þung og erfið þau skref eru fyrir alla (Forseti hringir.) að stíga og hversu það getur ýtt undir hættuna á því að menn gefist upp, missi vonina og festist í þeirri stöðu sem þeir eru þá á endanum lentir í.