144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég vil byrja á að segja eitt af því að hann talaði hér um hreppsómaga. Þó að mér finnist ég tiltölulega ung þá er ég samt alin upp í upphafi minnar æsku í blokk og þar man ég vel eftir gömlum manni sem hafði verið ómagi. Það er ekki svo langt síðan, það tímabil. Ég hef farið einmitt yfir það hvað lögin frá 1991 breyttu ásýndinni.

Ég þakka fyrir að þingmaðurinn hafi deilt af reynslu sinni sem sveitarstjórnarmaður og ég tek heils hugar undir með honum að þau kerfi sem við eigum í samfélaginu til að tryggja velferð okkar allra verða að njóta trausts. Við þurfum að leita leiða og gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir misnotkun. Þá er spurningin hvernig við viljum gera það. Viljum við, eins og hann talaði um, að 6.200 manns búi við sára fátækt, það er fólk sem gjarnan er í þeim hópi? Ætlum við að breyta lögunum þannig að við skjótum maur með fallbyssu? Eða ætlum við að reyna að beita aðferðum sem skaða ekki þá sem raunverulega þurfa á aðstoðinni að halda, sem er auðvitað meiri hluti fólksins?

Hv. þingmaður gaf okkur dæmisögu af ungmennum sem skólinn og samfélagið höfðu brugðist, þess vegna voru þau komin á þennan stað og fjölskyldur þeirra gátu ekki veitt þeim þá aðhlynningu sem þau þurftu til þroska. Kannski voru það ekki hótanirnar frá sveitarfélaginu heldur kannski velvild sem til dæmis hv. þingmaður sýndi þeim. Ef menn búa í samfélagi þá verða þeir að hafa þá tilfinningu að einhver hafi trú á þeim og sjái hæfileikana sem í þeim búa. Og er þingmaðurinn ekki sammála mér um það að til þess höfum við félagsráðgjafa, sálfræðinga og fleira fagfólk sem menntar sig árum saman einmitt (Forseti hringir.) til þess?