144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:06]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Við höfum öll þessi úrræði. Þess vegna er svo merkilegt hvernig staða okkar er. Við rekum öflugt félagsmálakerfi og annað. Það sem ég held kannski að gæti vantað helst inn í það er hvað við eigum erfitt með að sýna hvert öðru kærleika og umhyggju. Ég get alveg sagt það að með þessa tvo unglinga sem ég tók að mér á sínum tíma, lykillinn að því að þeir náðu árangri var að þeir föttuðu það og fundu að mér þótti vænt um þá. Mér var ekkert sama um þá og ég lét það óspart í ljósi að mér væri ekkert sama um þá og við værum að gera þetta til þess að hjálpa þeim. Svo kemur í ljós að þessir tveir unglingar voru uppfullir af hæfileikum sem þeir gátu ekki unnið úr en þeir fundu það eftir smátíma með mér þar sem við unnum saman á hverjum einasta degi í að byggja þá upp, sérstaklega sjálfstraust og sjálfsvirðingu, sem er ekki létt verk þegar unglingar eða fólk bara almennt hefur búið við slæmar aðstæður lengi, þá er erfitt að byggja upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Ég tala af eigin reynslu líka, en það er annað mál.

Við höfum fullt af úrræðum. Við þurfum bara að vera tilbúin til að takast á við erfiðleika strax þegar svona hlutir gerast og hvetja fólk. Það stendur líka í markmiðsgreininni að það eigi að styrkja fólk til sjálfshjálpar. Því miður heyrir maður umræðuna í samfélaginu að sumir vilja hörku í þessum málum, en þeir átta sig ekki á aðstæðum. Það er kannski þess vegna sem umræðan er neikvæð. Það er verið að tala um að þetta fólk sé bara aumingjar sem nenni hreinlega ekki að vinna og eigi ekki að vera á bótum. En við höfum úrræðin og við þurfum að nýta þau. Mér finnst vanta allt of mikið inn í íslenskt samfélag samlíðan og umhyggju.