144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sigurður Guðmundsson listamaður sagði eitt sinn að allt sem við hlúum að og hugsum vel um yrði fallegt. Það sama á við um mannskepnurnar. Við þurfum að finna fyrir því að við skiptum máli og að við skiptum máli fyrir aðra.

Það er auðvelt að vekja upp andúð á þeim sem fá aðstoð eða bætur, sérstaklega þegar fólk býr sjálfstætt, er í fullri vinnu, er með lök kjör, finnst svo eins og það sé að nýta skattféð sem það greiðir inn í ríkissjóð eða sveitarfélagið með einhverjum sviksamlegum hætti. Það er svo auðvelt að vekja upp andúð á svona kerfum þó að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem eru með réttindi þar eða þurfa á aðstoð að halda þurfi það svo sannarlega og sé ekki að beita á neinn hátt klækjum og mundi gjarnan vilja vera í fullu fjöri á vinnumarkaði ef tök væru á.

Mig langaði að nefna eitt af því að hv. þingmaður kom inn á skatta. Það er svolítið merkilegt að einmitt í síðasta fjárlagafrumvarpi átti að fella niður framlög til sérstaks átaks til að koma í veg fyrir skattsvik. Það var fyrir þrákelkni stjórnarandstöðunnar að bætt var inn fjármunum aftur en þó minna en ástæða hefði verið til miðað við þær tekjur sem komu á móti.

Við erum með annað dæmi hérna, upplýsingar um skattaskjól. Það virðist vera stórum ríkjum lítið mál, þetta er auðvitað dýrt, ég veit ekki hvernig slík viðskipti ganga fyrir sig, en stærri ríki eru ekki í neinum vandræðum með að koma í gegn einhverjum leiðum til þess að fá heimild til að kaupa þær upplýsingar. Hér virðist vera mjög lítill vilji eða nánast enginn. Er það ekki skrýtið að við ætlum að skerða réttindi fólks í einu kerfi til þess að tryggja að komið verði í veg fyrir svik en viljum svo ekki gera það í kerfum (Forseti hringir.) þar sem er raunverulega fjármuni að sækja?