144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[13:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég held að hann hafi að hluta til að minnsta kosti komið að kjarna málsins þegar hann talaði í upphafi máls síns um þá láglaunastefnu sem hefur verið ríkjandi á Íslandi svo og að þetta sé ríkisstjórn auðmanna. Eitt af þeim stóru vandamálum sem við í íslensku samfélagi í dag glímum við er aukin misskipting í samfélaginu. Þar helst allt í hendur, t.d. skattstefna ríkisstjórnarinnar, hverjir það eru sem ekki þurfa að borga til samfélagsins og svo hvar er verið að skera niður, þrengja að, hvaða hópar það eru sem fara verst út úr því.

Við hv. þingmaður erum að minnsta kosti sammála um nauðsyn þess að auka virkni fólks í samfélaginu, þetta snýst um leiðina að því, hvernig við förum að því. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um það að í frumvarpinu sé ekki byrjað á réttum stað með því að setja svona skilyrðingar fyrir fjárhagsaðstoð, hvort ekki væri nær að byrja á því að skilgreina grunninn, einhvers konar samræmt grunnviðmið sem sveitarstjórnir mundu setja sér um það hvað væri lágmarksframfærsla eða tryggja að ekki sé aðstöðumunur milli fólks eftir búsetu.