144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér í þingsal. Okkur hefur orðið tíðrætt um stöðuna á vinnumarkaði í þessum sal að undanförnu og hún er mörgum áhyggjuefni. Það gæti stefnt í hörð átök og við sjáum til að mynda að kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins eru komnar til ríkissáttasemjara í raun og veru áður en þær hefjast.

Vissulega er það alltaf snúin staða að vera í sporum stjórnvalda á slíkum tímum þar sem til að mynda aðilar á hinum almenna markaði benda nú sérstaklega á kjarasamninga við kennara og lækna og telja að hinn almenni markaður hafi setið eftir. En eins og hið opinbera hefur bent á á móti tengjast þessar kjarabætur tilteknum breytingum á vinnufyrirkomulagi og að einhverju leyti hafa til að mynda kennarastéttir setið eftir þannig að vissulega er sýn manna á þessi mál ólík.

Það sem mig langar að gera að umtalsefni hér er að hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt ítrekað í þessum sal að hann líti á það sem verkefni aðila vinnumarkaðarins að koma sér saman um kjarasamninga en hæstv. forsætisráðherra hefur á sama tíma sagt að það sé sérstakt markmið þessara kjarasamninga að bæta kjör lág- og millitekjuhópa. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur líka talað í sömu átt þannig að ég er ekki hissa á því að aðilar vinnumarkaðarins kalli eftir því að stjórnvöld sýni á einhver spil til þess að greiða fyrir kjarasamningum.

Ég tel raunar að ýmsar aðgerðir hins opinbera hafi hreint ekki orðið til þess að stuðla að ró á vinnumarkaði. Ég get til að mynda nefnt aðgerðir stjórnvalda í skattamálum sem eru beinlínis til þess fallnar að auka misskiptingu í samfélaginu og þar ber hæst afnám auðlegðarskattsins, hækkun matarskattsins og nú síðast talar hæstv. fjármálaráðherra um að hverfa frá hinu þrepaskipta skattkerfi í áföngum. Aðilar vinnumarkaðarins hafa bæði kvartað undan skorti á samráði um þessar breytingar því að þær hafa bein áhrif á kjör fólksins í landinu. Þar nægir að nefna þá staðreynd að munur er á tekjum stjórnenda hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, stjórnendur hér á landi eru með hærri tekjur en annars staðar á Norðurlöndum. Þann mun má beinlínis rekja til mismunandi skattkerfa þar sem þeir eru skattlagðir harðar annars staðar á Norðurlöndum. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif, bæði á kjör en líka á dreifingu eða skiptingu teknanna. Skattstefnan hefur áhrif á þetta.

Annað umhugsunarefni fyrir stjórnvöld er að að sjálfsögðu leggja þau áherslu á stöðugleika. Í hverju felst sá stöðugleiki? Hér hef ég gert að umtalsefni kjör lágtekjuhópanna sérstaklega, lág- og millitekjuhópa, og það er eðlilegt að við setjum þær kröfur í forgang þegar við skoðum stöðuna á vinnumarkaði, ekki síst eftir að ný gögn birtust nú á dögunum um misskiptingu eigna í samfélaginu þar sem ríkustu 10% eiga 70% alls auðs. Þá hljótum við að gera þá kröfu til stjórnvalda að þær breytingar sem ráðist er í, og ég nefndi skattkerfisbreytingarnar, ýti undir jöfnuð en fari ekki beina leið í hina áttina, í átt til aukinnar misskiptingar. Það er sú krafa sem við hljótum að gera og það er það markmið sem við ættum að fylkja okkur á bak við.

Ég vil líka nefna aðrar aðgerðir stjórnvalda, við getum nefnt leiðréttinguna sem gagnast íbúðareigendum. En hvar standa leigjendur eftir hana? Og hverjir eru það sem fylla hóp leigjenda? Er það hátekjufólkið í landinu? Það er ekki hátekjufólkið í landinu, það eru einmitt þessir sömu lág- og millitekjuhópar sem þar sitja eftir.

Ég vil nefna fleiri aðgerðir stjórnvalda sem hafa bein áhrif á kjör fólksins í landinu, hækkandi komugjöld í heilbrigðisþjónustu. Er það ekki sameiginlegt verkefni okkar hér í þessum sal að setja stopp við sívaxandi greiðsluþátttöku sjúklinga og snúa til baka og draga úr þeirri greiðsluþátttöku?

Ég vil líka nefna aðgengi að menntun sem með síðustu fjárlögum var takmarkað við fólk undir 25 ára aldri. Skyndilega er hópurinn yfir 25 ára ekki með aðgengi að bóklegu námi á framhaldsskólastigi. Hvað þýðir það fyrir kjör fólksins í landinu? Allt eru þetta breytur sem hafa áhrif á það hvernig við lifum í þessu samfélagi. Það er mikilvægt að stjórnvöld geri sitt ýtrasta til að skapa sátt um þessi atriði til að greiða fyrir því að þessir aðilar, sem þurfa að ná saman, geti náð saman.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, í ljósi þess að við höfum aðra forustumenn hér í ríkisstjórninni sem hafa beinlínis sagt að markmiðið eigi að vera að bæta kjör lág- og millitekjuhópa — ég vænti þess að það sé innstæða á bak við þau orð — hvort hann sé sammála því að það sé markmiðið í komandi kjarasamningum. Hvernig nákvæmlega telur hann að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi áhrif á að ná því markmiði? Telur hann ástæðu til þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir á einhverjum af þessum sviðum til þess að greiða fyrir því að samningar náist og að við sleppum við átök á vinnumarkaði?