144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Staðan á vinnumarkaði er verðugt umræðuefni hér í þessum sal enda miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag, að samið verði á skynsamlegum nótum þannig að allir fái notið bættra lífskjara og áframhaldandi kaupmáttaraukningar.

Fáum fyrst nokkur atriði á hreint. Því hefur verið haldið á lofti að ríkið hafi verið leiðandi í launaþróun síðustu missiri og rofið sátt á vinnumarkaði með því að hækka laun ríkisstarfsmanna úr takti við aðra launaþróun. Þetta er ekki rétt. Ljóst er að samningar ríkisins við um 90% starfsmanna á árinu 2014 tóku mið af þeirri stefnumótun sem aðilar á vinnumarkaði komu sér saman um í aðdraganda gerðar kjarasamninga á síðasta ári. Undantekningar frá þessu, sem hv. málshefjandi vék að, eru afmarkaðar og taka til tiltölulega fámennra hópa þar sem samið var til lengri tíma og um grundvallarbreytingar á þeirri starfsemi sem í hlut á.

Ef litið er til launaþróunar frá þriðja ársfjórðungi 2013 til þriðja ársfjórðungs 2014 hafa laun ríkisstarfsmanna hækkað um 6,8%, sem er meira en á almennum vinnumarkaði, en þar hækkuðu laun um 5,9%. Sé hins vegar litið til launaþróunar undanfarinna ára hafa laun starfsmanna ríkisins ekki hækkað meira en laun á almennum vinnumarkaði. Það verður að taka það með í myndina hvernig laun hafa verið að þróast yfir árabil. Þar er niðurstaðan skýr, almenni markaðurinn hefur leitt þróunina.

Aðalatriðið er þó þetta: Á undanförnum missirum hefur kaupmáttaraukning fólks verið með því mesta sem við höfum séð hér á landi um langt skeið, 5–6%. Atvinnuleysi fer sömuleiðis minnkandi og atvinnuþátttaka eykst. Það er lofsverður árangur sem meðal annars ber að þakka skynsamlegum kjarasamningum á síðasta ári. Verðbólga er með lægsta móti, það sýna nýjustu tölur. Seðlabankinn spáir nú aðeins 0,7% verðbólgu hér á landi á yfirstandandi ári en 0,8% í helstu viðskiptalöndum. Það er fáheyrt að verðbólgu sé spáð hér lægri en í nágrannalöndunum.

Við þetta er að bæta að ríkisstjórnin hefur með skattstefnu sinni lækkað álögur á almenning og fyrirtæki, létt undir með skuldugum heimilum, styrkt stoðir heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins svo um munar og hækkað bætur. Á sama tíma hefur jafnvægi náðst í ríkisfjármálum með tvennum hallalausum fjárlögum í röð og skuldahlutföll ríkisins fara lækkandi. Þetta eru allt atriði sem stuðla að bættum lífskjörum almennings og styðja við stöðugleika í efnahagslífinu.

Í Peningamálum Seðlabankans, sem út komu í gærdag, má greina að efnahagshorfur eru almennt nokkuð góðar, meðal annars vegna ytri skilyrða á heimsvísu eins og lækkandi olíuverðs og batnandi viðskiptakjara. En varnaðarorð Seðlabankans eru skýr: Vegna óróleika á vinnumarkaði eru efnahagshorfur tvísýnni en áður. Með öðrum orðum, það sem ógnar helst stöðugleikanum og aukinni hagsæld á Íslandi eru kjarasamningar sem taka ekki mið af því sem atvinnulífið getur staðið undir.

Ég sakna þess hér í þingsal og í umræðu á Alþingi almennt um þessi mál að tekið sé undir þetta sjónarmið, að tekið sé undir þau sjónarmið að það skipti sköpum fyrir stöðugleikann í framhaldinu að niðurstaða kjarasamninganna styðji við áframhaldandi stöðugleika. Það er of lítið talað um það hér í þingsal að mínu áliti en of mikið reynt að kynda undir með einhverjum óróleika á vinnumarkaði og bent á ríkisstjórnina, að hún eigi sök á því að hér sé spenna á vinnumarkaði o.s.frv.

Ég hef rakið tölurnar fyrir síðasta ár. Við vitum hver verðbólgan er í dag, við vitum hver kaupmáttaraukningin var á síðasta ári. Það er ekki innstæða fyrir því að ríkisstjórnin sé að setja af stað þróun sem veldur þessum óróleika sem menn eru að vísa til. Það sem við sjáum hins vegar er gamalkunnugt stef þar sem sumir menn, oft fámennir hópar, ætla að áskilja sér meiri hækkanir en almennt er innstæða fyrir á markaðnum.

Dæmi um það eru samningarnir við lækna. Það geta ekki allir hópar fengið þær kjarabætur sem læknar fóru fram á og á endanum var samið um þó að allir hafi þurft að gefa eitthvað eftir í samningunum við lækna. Það er bara staðreynd. Við skulum bara horfast í augu við þá staðreynd og viðurkenna hana og ræða um málin á þeim forsendum hér í þingsal.

Þar stóð ríkisstjórnin frammi fyrir því að horfa upp á skurðdeildir á sjúkrahúsum í landinu óstarfhæfar eða að þeim yrði lokað eða að semja. Við fundum millileið í þessu eftir að verkfall hafði staðið yfir í margar vikur og reyndar hafði verið ýtt mjög á eftir því hér af öllum flokkum í þinginu að samningum yrði náð. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en að þar væri verið að fara fram á að að einhverju leyti yrði komið til móts við kröfur lækna og ég fagna því að það hafi á endanum tekist.

Ég vísa því frá mér og ríkisstjórninni að hún beri ábyrgð (Forseti hringir.) á þeim óróa sem er í dag á vinnumarkaði en við höfum öll færi enn, við höfum það algerlega í hendi okkar sameiginlega, Íslendingar, að ná (Forseti hringir.) farsælli niðurstöðu.