144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu því að hún gefur okkur færi til þess að heyra hæstv. fjármálaráðherra í annað sinn á þessum eina degi svara ekki spurningum sem til hans er beint um ábyrgð á þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsætisráðherra hefur látið falla um mikilvægi þess að lægstu laun verði hækkuð í komandi kjarasamningum og svar fjármálaráðherra við því með hvaða hætti eigi að efna það fyrirheit.

Forseti Alþýðusambandsins sagði skýrt í morgun að á meðan auðlegðar- og auðlindaskattar væru teknir út og sjúklingar látnir taka meiri þátt í kostnaði en áður yrði engin sátt. Það er auðvitað sú staðreynd sem hæstv. fjármálaráðherra verður að horfast í augu við, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á síðustu mánuðum og missirum hafa aukið á misskiptingu, skapað aukna óþreyju meðal lágtekjufólks og meðaltekjufólks og þar af leiðandi þrýst upp þörfinni á kauphækkun. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það er mjög mikilvægt að kjarasamningar styðji við langtíma efnahagslegan stöðugleika, en ríkisstjórn ber grundvallarábyrgð á því að tryggja að aðstæður séu með þeim hætti að hægt sé að ná slíkum kjarasamningum.

Fyrri ríkisstjórnir hafa þess vegna lagt sérstaka rækt við samskipti á vinnumarkaði. Það er mjög athyglisvert til dæmis að með öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar í haust, þar sem brotið var langvarandi samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins um framlög ríkisins til tiltekinna þjóðþrifamála, var þessi ríkisstjórn að brjóta samkomulög sem stafa frá fyrri stjórnartíð þessara tveggja flokka. Meira að segja þeir forustumenn sem þá voru í forsvari fyrir þessa tvo flokka treystu sér til að gera samninga sem héldu við aðila vinnumarkaðarins. Það ræður þessi ríkisstjórn ekki við að gera og hefur ekki gert.

Við þessar aðstæður, þó að hægt sé að taka undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi efnahagslegs stöðugleika sem afleiðingar kjarasamninga, er ekki hægt að setja ábyrgðina af (Forseti hringir.) stöðugleikanum á launafólk og láglaunafólk eingöngu. Það hlýtur að vera þannig að ríkisstjórnin beri höfuðábyrgð á því, með skattstefnu sinni og með kjaramálastefnu sinni, að greiða fyrir stöðugleika sem nýtist öllum.