144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að stofna til þessarar umræðu. Það gengur auðvitað ekki upp að lágmarkstaxtar standist ekki grunnframfærsluviðmið. Aukinn ójöfnuður, laun sem ekki standast neysluviðmið, hækkanir einstakra opinberra launahópa og ofurlaun stjórnenda eru þeir þættir sem bent hefur verið á að skapi að vissu leyti þær kringumstæður sem uppi eru, ólgu í verkalýðshreyfingunni þannig að tónninn er þungur þar á bæ og ástandið því viðkvæmt.

Atvinnulífið og samtök þeirra benda á að kaupmátturinn skipti mestu máli og auðvitað skiptir það mestu máli þegar upp er staðið hvað við fáum fyrir krónurnar fremur en hversu margar þær eru. Og það er staðreynd að kaupmáttur jókst á síðasta ári um 5%, það er hægt að mæla það. Svigrúm til launahækkana byggist á verðmætasköpun og framleiðni og kaupmátturinn á stöðugleikanum. Skilaboðin frá Seðlabankanum og peningastefnunefnd sem birtast í síðustu vaxtaákvörðun segja sérstaka sögu.

Þrátt fyrir hjöðnun verðbólgu er vöxtum haldið óbreyttum og ástæðan er fyrst og fremst óvissa á vinnumarkaði. Í þessu felst auðvitað ákveðin þversögn vegna þess að í vaxtalækkun, sem er mjög mikilvæg við þessar aðstæður, felst gífurleg kjarabót fyrir atvinnulífið og heimilin. Nefndin gengur lengra og gefur til kynna að ábyrgð samningsaðila sé svo mikil að jafnvel þurfi að hækka vexti á ný ef launahækkanir verði svo miklar að þær ógni verðstöðugleika.

Auðvitað þarf að ná grundvelli sáttar og vaxtalækkun er risastórt kjaramál. Afgangur á ríkissjóði, skuldaleiðréttingin og áframhaldandi skattalækkanir og heildstæðar stefnumarkandi lausnir í húsnæðismálum eru og verða mikilvægt innlegg í bætt lífskjör og aukið svigrúm til skynsamlegra launahækkana.

Virðulegi forseti. Meginmarkmiðið hlýtur að vera aukinn kaupmáttur.