144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég velti fyrir mér af hverju við erum alltaf áratug eftir áratug að ræða sömu málin. Hvernig stendur á því að í þessu samfélagi er enn fólk sem býr við mikinn skort? Og hvernig stendur á því að í hvert skipti sem þeir sem hafa lægstu launin kalla eftir hækkunum á sínum kröppu kjörum séu þeir mesta ógnin við stöðugleikann? Mikið eru þeir klárir sem spinna í kringum þennan veruleika því að alltaf skulum við vera í nákvæmlega sömu umræðunni áratug eftir áratug. Hvað getum við gert til að breyta því?

Þetta hlýtur að kalla á það að við förum í mun djúpstæðari umræður um hvort hægt sé að afnema fátækt. Það er alveg ljóst að það er enginn áhugi á að afnema fátækt á Íslandi. Það er enginn áhugi, það sá maður kristallast í fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar sem hér var samþykkt fyrir áramót. Því miður. Það sá maður kristallast í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að skapa óstöðugleika til að skapa tilfinningu fyrir óréttlæti með því að koma hér á matarskatti, með því að koma hér á komugjöldum, með því að þrengja leiðir fólks til þess að geta símenntað sig eða klárað nám til stúdentsprófs.

Við hljótum að geta verið sammála um að fátækt sé smánarblettur á samfélagi okkar. Ég óska eftir því að hér verði farið í djúpar alvöruaðgerðir til að fyrirbyggja fátækt. (Forseti hringir.) En ég óska eftir því að viljanum sé lýst frá hendi hæstv. fjármálaráðherra, ef hann er sammála mér, um að fátækt sé eitthvað sem ekki eigi að líðast hérlendis.