144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[13:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér laun á vinnumarkaði og í hvað stefnir varðandi vinnumarkaðinn þegar Starfsgreinasambandið hefur lagt fram kröfur sínar. Mönnum virðist vera mjög brugðið á ýmsum bæjum gagnvart þeim kröfum. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að samið sé á skynsamlegum nótum. Hvað þýðir það? Hann talar líka um að hann vísi því frá sér að stjórnvöld hafi gripið inn í með einhverjum hætti sem eigi að spilla fyrir samningsgerð á almenna markaðinum.

Mér finnast þessi ummæli vera mjög lýsandi fyrir það að menn eru ekki jarðtengdir í hæstv. ríkisstjórn og hafa ekki skilning á málunum. Veruleikinn er sá að fólk sem er með rúmar 200 þús. kr. á mánuði í laun getur ekki framfleytt sér með neinum hætti. Það er bara hinn kaldi veruleiki. Ef vilji stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins er sá að halda áfram þessu mikla launabili, að þeir sem hafi lægstu launin hafi ekki nokkra möguleika á að framfleyta sér nema með miklum félagslegum stuðningi eða mikilli vinnu, þá erum við mjög illa stödd.

Ég styð þessar réttmætu kröfur sem nú eru komnar fram — um að fólk sem er á þessum lægstu smánarlegu launum hækki um það, þó að það sé hátt í prósentum talið — að laun séu að lágmarki 300 þús. kr. Í raun og veru er það allt of, allt of lítið. Ég bara skil ekki þegar menn geta stigið hér fram og talað eins og þeir svífi (Forseti hringir.) um á bleiku skýi þegar þeir eru að tala um fólk sem þarf að búa við þessi skammarlegu kjör.