144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

staðan á vinnumarkaði og kjör lág- og millitekjuhópa.

[14:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er þörf og góð. Eitt af því sem mér finnst áhyggjuefni er sú tortryggni sem ríkir á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Við höfum séð hvernig tryggingagjaldið lækkar ekki eins og það ætti að gera, hvernig stjórnvöld draga lappirnar þegar kemur að mikilvægum úrræðum eins og VIRK, Fæðingarorlofssjóður stendur ekki undir greiðslum eins og hugmyndin var í upphafi og virkar þar af leiðandi ekki eins og hugmyndin var. Og bæði ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir óánægju með samskipti sín við stjórnvöld. Ég mundi hafa áhyggjur af því ef ég væri fjármálaráðherra þegar tveir svo ólíkir hagsmunaaðilar hafa sömu sögu að segja. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra kippi þeim samskiptum í liðinn.

Ég held að við mörg hér séum sammála um að lágmarkslaun í landinu séu allt of lág. Verkefnið hlýtur að vera að hífa þau upp. Fólk sem fer út á vinnumarkaðinn, hefur af því kostnað, greiðir skatta og skyldur, verður að fá sómasamleg laun sem það getur lifað af. Það er orðið skrýtið þegar við erum með kerfi þar sem við greiðum út barnabætur og vaxtabætur til fólks sem er úti á vinnumarkaði og ætti í sjálfu sér að hafa nóg að bíta og brenna.

Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, við sem höfum hærri launin — margar stéttir hafa fengið ágætisbætur og við höfum séð kaupmáttaraukningu, það er staðreynd. Þær stéttir ættu að sitja á sér og við eigum að gera það að forgangsverkefni að lægstu launin séu hækkuð. Mér finnst þau 300 þúsund sem hafa verið nefnd í þessu (Forseti hringir.) sambandi ekki óraunhæf upphæð.