144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum, og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu lúta í stuttu máli að því að tryggja framhald samstarfsverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð sem og að auka vinnuvernd á vinnustöðum á tilteknum sviðum. Tilraunaverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA eins og það hefur verið kallað, hefur verið starfrækt frá árinu 2011 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða nr. IV sem sett var með lögum nr. 152/2010, um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Þar er kveðið á um að koma skuli á sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Fram kemur að markmið verkefnisins sé að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Sérstök verkefnisstjórn var skipuð til að annast framkvæmd þess og hennar fyrstu verkefni voru meðal annars að leggja niður ramma sem unnið yrði eftir og gefa út leiðbeiningar og undirbúa annað efni sem nauðsynlegt var til að verkefnið næði markmiði sínu.

Á miðju ári 2012 voru svo fyrstu tilraunasamningar vegna NPA samþykktir. Samkvæmt núgildandi ákvæði var gert ráð fyrir að verkefninu lyki í árslok 2014 og lagt yrði fram frumvarp sem breytti lögum um málefni fatlaðs fólks á þann veg að festa NPA í sessi sem þjónustuform. Það er hins vegar mat verkefnisstjórnarinnar að ekki sé komin nægileg reynsla á verkefnið til að hægt sé að tryggja að markmið NPA nái fram að ganga með fullnægjandi hætti ef lagt yrði fram frumvarp þess efnis núna og tek ég hér með undir það mat verkefnisstjórnarinnar.

Þá stendur einnig yfir heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og tel ég eðlilegra að ákvæði um notendastýrða persónulega aðstoð komi inn í endurskoðaða löggjöf á þessu sviði. Með frumvarpinu legg ég því til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða nr. IV í lögum um málefni fatlaðs fólks verði framlengdur þannig að samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð verði framlengt um tvö ár eða til ársloka 2016. Er það gert með það fyrir augum að nota megi tímann þar til frumvarp í tengslum við endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks verði lagt fram til að þróa frekar verklag við notendastýrða persónulega aðstoð enda tel ég afar mikilvægt að vandað sé til verka þegar verið er að innleiða nýja þjónustu.

Í greinargerðinni er fjallað aðeins um það hvernig frændur okkar á Norðurlöndunum hafa staðið að innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð. Sem dæmi kemur hér fram að byrjað var með tilraunir með notendastýrða persónulega aðstoð í Noregi árið 1990 sem síðan leiddi til þess að 10 árum seinna, árið 2000, var slík þjónusta lögfest sem þjónustuúrræði þar í landi. Gerðar voru breytingar árið 2012, 12 árum seinna, og var slík þjónusta þá lögfest sem sérstakt þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk sem sveitarfélögum í Noregi væri skylt að veita.

Í tengslum við þá breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og ég hef nú farið yfir í stuttu máli er í frumvarpinu jafnframt gert ráð fyrir breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Eru þær breytingar lagðar fram í því skyni að auka sveigjanleika hvað varðar vinnufyrirkomulag þeirra starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð á grundvelli samstarfsverkefnisins en með þeim tel ég auknar líkur á að verkefnið nái markmiðum sínum.

Bent hefur verið á, frá hendi verkefnisstjórnar og notendaþjónustunnar í framhaldi ábendinga sem verkefnisstjórnin hefur fengið, að þær reglur sem í gildi eru samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma starfsmanna, geti sett framkvæmd verkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð nokkrar skorður. Því er í frumvarpinu lagt til að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins verði heimilt að víkja frá tilteknum ákvæðum laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli verkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð. Í þessu sambandi, svo sem eins og annars snýr að NPA, var einmitt litið til þeirra reglna sem í gildi eru annars staðar á Norðurlöndunum.

Tillagan að þessum tilteknu breytingum á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er þannig sett fram í því skyni að stuðla að því að framkvæmd verkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð geti orðið með þeim hætti sem gert var ráð fyrir þegar verkefnið var sett á laggirnar og er gildistími breytinganna því miðaður við tímarammann sem verkefninu er settur en líkt og komið hefur fram er í frumvarpinu lagt til að því verði lokið fyrir árslok 2016.

Það er hins vegar mikilvægt að geta þess að þær reglur um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma sem kveðið er á um í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eru lágmarksreglur um tiltekna vernd til handa starfsmönnum. Því er mjög mikilvægt að gæta varfærni og meðalhófs við setningu reglna sem hugsanlega geta skert þá vernd en ætla má að slíkt sé almennt ekki heimilt nema unnt sé að réttlæta slíkar skerðingar á málefnalegan hátt auk þess sem lögmæt markmið standi þar að baki. Því er í þessu ljósi gert ráð fyrir í frumvarpinu að fyrir þurfi að liggja samkomulag samtaka aðila vinnumarkaðarins um að víkja frá ákvæðum laganna þannig að sé hvíldartími styttri hjá viðkomandi starfsmönnum en ákvæði laganna gera ráð fyrir geti þeir síðar og eins fljótt og við verði komið fengið að lágmarki samsvarandi hvíldartíma og lögin kveða á um. Ég taldi líka mjög mikilvægt að Vinnueftirlitið mundi veita umsögn um samkomulagið sem samtök aðila vinnumarkaðarins gera í þessu sambandi.

Hvað varðar aðrar breytingar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er í frumvarpinu gert ráð fyrir að beini Vinnueftirlit ríkisins skriflegum fyrirmælum til atvinnurekenda um úrbætur á vinnustað beri viðkomandi atvinnurekanda eða fulltrúa hans að tilkynna stofnuninni formlega um það þegar umræddum úrbótum er lokið. Þetta er lagt til í því skyni að auka skilvirkni við vinnustaðaeftirlit Vinnueftirlitsins með það að markmiði að auka öryggi innan vinnustaða. Er þannig gert ráð fyrir að Vinnueftirlitið geti fylgt því eftir með markvissari hætti en áður að innan vinnustaða sé brugðist við skriflegum fyrirmælum stofnunarinnar um úrbætur innan þess frests sem veittur hefur verið.

Auk þess má gera ráð fyrir að fyrirkomulag þetta komi til með að leiða til hagræðis bæði fyrir atvinnurekendur og Vinnueftirlit ríkisins. Í því sambandi má meðal annars ætla að fyrirkomulagið komi til með að fækka eftirlitsheimsóknum Vinnueftirlitsins á vinnustaði þar sem gert er ráð fyrir að atvinnurekendur eða fulltrúar þeirra upplýsi Vinnueftirlitið um úrbætur á vinnustöðum þegar þeim er lokið. Vinnueftirlitið getur þá í kjölfarið metið, meðal annars á grundvelli þeirra upplýsinga sem það hefur fengið frá hlutaðeigandi atvinnurekanda, hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimsóknum á viðkomandi vinnustað í tengslum við þau fyrirmæli sem stofnunin hefur gefið um úrbætur á vinnustaðnum.

Virðulegi forseti. Um nokkurt skeið hafa legið fyrir í velferðarráðuneytinu drög að nýrri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Til að tryggja þeirri reglugerð lagastoð er í frumvarpinu lagt til að ráðherra hafi ekki einungis heimild til að setja reglugerð um aðgerðir gegn einelti líkt og gert er ráð fyrir í gildandi lögum heldur verði ráðherra einnig heimilt að setja reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þegar misbrestur verður á að skapa gott og jákvætt vinnuumhverfi með tilliti til félagslegra og andlegra þátta er það mitt mat að líkur aukist á margs konar vanda sem geti meðal annars aukið vanlíðan hjá starfsfólki og jafnvel leitt til heilsutjóns til lengri eða skemmri tíma, dregið úr starfsánægju, skert framleiðni og aukið starfsmannaveltu en framangreindar ástæður eru alla jafnan neikvæðar fyrir hvaða vinnustað sem er. Því er það að mínu mati mjög mikilvægt að umrædd breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nái fram að ganga. Og þróunin hefur verið þannig á undanförnum árum að við sjáum æ fleiri mál koma upp sem tengjast þessum andlegu þáttum, eins og hér er talað um, sem eru ekki beint tengdir vélum eða tækjum sem reglur um vinnuvernd sneru frekar að áður fyrr. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að reglugerð endurspegli það og að sjálfsögðu sé þá lagastoð fyrir henni.

Eins og fram hefur komið í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks annars vegar og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hins vegar í því skyni að tryggja framhald samstarfsverkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð sem og í því skyni að auka vinnuvernd á vinnustöðum á tilteknum sviðum. Í 1. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kemur meðal annars fram að með lögunum skuli leitast við að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu. Ég tel þannig að þær breytingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir á lögunum séu mikilvægur liður í því að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi á vinnustöðum og legg ég því mikla áherslu á að þær breytingar nái fram að ganga. Það sama á við um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um málefni fatlaðs fólks hvað varðar samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð.

Í því sambandi tel ég rétt að vekja athygli á að það er mat verkefnisstjórnar um verkefnið að ekki sé komin slík reynsla á framkvæmd verkefnisins að unnt sé að tryggja að markmið þess geti náð fram að ganga með fullnægjandi hætti ljúki verkefninu í árslok 2014. Það er líka ágætt til áminningar að fara yfir hvernig verkefnisstjórnin er skipuð. Hún er skipuð tveimur fulltrúum ráðherra, fulltrúa Landssamtakanna Þroskahjálpar, fulltrúa Öryrkjabandalagsins og þremur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt tók verkefnisstjórn ákvörðun um að samþykkja ósk NPA-miðstöðvarinnar um áheyrnarfulltrúa á fundum verkefnisstjórnarinnar. Á meðan verkefnisstjórnin hefur starfað hefur hún hitt fjöldann allan af einstaklingum, fulltrúum, og líka átt mjög gott samstarf við fjölda aðila, svo sem notendur þjónustunnar sem veitt er á grundvelli verkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð og starfsfólk á ýmsum fagsviðum er tengjast framkvæmd verkefnisins.

Ég tel mig geta tekið undir það sjónarmið, og geri ég það að tillögu minni í frumvarpinu, að gildistími verkefnisins verði framlengdur til ársloka 2016.

Hvað varðar samráð við ýmsa aðila kemur það fram í frumvarpinu á bls. 6 hvernig staðið hefur verið að því og má nefna það hér sem snýr að NPA-þjónustunni en hvað varðar vinnuverndarþætti hefur að sjálfsögðu verið haft samráð við aðila vinnumarkaðarins varðandi þau ákvæði.

Ég vil að lokum taka fram, þótt kannski sé ekki endilega ástæða til, að ég tel að greinargerðin sé mjög gott gagn og fari inn á ýmsa þætti sem ég hef ekki komið inn á hér sem eru mjög upplýsandi varðandi verkefnið.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. velferðarnefndar.