144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna og fagna því að verið sé að breyta lögum þannig að eftirlit Vinnueftirlitsins verði skilvirkara. Ég er einnig ánægð með að orðin „kynferðisleg áreitni“, „kynbundin áreitni“ og „ofbeldi á vinnustöðum“ komi inn í lögin.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, sem samkvæmt frumvarpinu fær heimild til að setja reglugerð, hvort það ætti í raun og veru ekki að segja að það skuli setja reglugerð. Það hlýtur að vera mikilvægt að til staðar sé reglugerð um eftirlit og ramma um þessi mál. Þetta er fyrri spurning mín til ráðherra.

Síðari spurning mín lýtur að stóra málinu, NPA. Það er auðvitað bagalegt að ekki sé hreinlega búið að lögfesta þá þjónustu en það má hafa skilning á því að það taki tíma að finna fyrirkomulag sem heldur og er gott til lengri tíma litið. En þá verður að gæta að því að þeir sem eru með NPA eða hafa löngun til að fara inn í það kerfi hafi tök á því. Samningum hefur fjölgað frá 2012 þegar þeir voru 22 og þeim mun fjölga upp í 61 á þessu ári. Þetta hefur verið að gerast í gegnum árin og samningarnir verða 61 árið 2016. En jafnframt kemur fram að það vanti fjármagn til að geta tryggt 61 einstaklingi NPA. Ég vil því spyrja ráðherra: Kemur ekki til greina að fjölga samningunum enn frekar og er ekki öruggt að hæstv. ráðherra muni tryggja fjármagn í verkefnið?