144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir andsvarið. Mér skilst að þetta sé lagatæknilegt, það sé almennt núna orðað þannig í lagatexta að setning reglugerðar sé heimildarákvæði, en ég held að þetta sé eitthvað sem nefndin getur farið yfir, hvort það eigi að vera skýrari ákvæði um að þetta sé skylt. Eins og ég nefndi líka liggja fyrir drög að reglugerð og hafa gert það í nokkurn tíma og ég tel mjög brýnt að ég fái heimild til að undirrita þá reglugerð.

Varðandi NPA þá hefðum við, eins og ég fór í gegnum í ræðu minni, kannski getað sagt okkur það þegar við fjölluðum um þetta á sínum tíma í velferðarnefnd og ætti raunar ekki að koma á óvart að ráðherra mundi standa hér og leggja til að framlengja tilraunaverkefnið. Eins og kemur fram í greinargerðinni, sem dæmi, þá byrjaði stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavík, ekki að bjóða upp á notendastýrða persónulega aðstoð að fullu fyrr en í byrjun árs 2013. Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem sneri einmitt að NPA. Það er leitt að mál þurfi að fara fyrir dóm en hins vegar tel ég túlkun dómstóla mikilvæga og sérstaklega ef málið fer áfram upp í Hæstarétt, en Reykjavíkurborg vann málið, þá er mikilvægt að fá niðurstöðu frá dómstólum um það hvernig þeir túlka þær kröfur sem komu þarna fram. Ég get sagt já, ég mun að sjálfsögðu gera mitt til að tryggja fjármagn fyrir NPA á árinu 2016. Við erum með fjármagn fyrir þetta ár, það var tryggt við fjárlagagerðina og það verður tillaga mín að við munum ljúka þessu tilraunaverkefni.