144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:39]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um mikilvægi þess að tryggja að fólk, óháð því hvar það býr, hvort sem það býr í stóru eða litlu sveitarfélagi, hafi sömu tækifæri til að fá að njóta sín og lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi. Það er hluti af því ferli sem við erum í núna, að fara yfir reynsluna af yfirfærslunni.

Ég vil líka nefna eitt af því sem ég hef heyrt á fundum mínum með félagsmálastjórum og sveitarstjórnarmönnum. Menn hafa velt fyrir sér reynslunni af skilgreiningunni á þjónustusvæðum. Einn orðaði það við mig að upplifunin væri meira þannig að málaflokkurinn hefði verið færður til félagsmálastjóra fremur en til sveitarstjórnarmanna. Það held ég að sé eitthvað sem við þurfum virkilega að íhuga því að mínu mati er mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar upplifi það þannig að þetta sé þeirra málaflokkur. Það eru því stór verkefni fram undan og NPA er mikilvægur þáttur í því. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að Alþingi samþykki að framlengja tilraunaverkefnið.