144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sannast að segja svolítið óþolinmóðari en hv. þingmaður sem talaði á undan mér. Ef ég skil þetta rétt þá er verið að framlengja tilraunaverkefnið um tvö ár, en samkvæmt hinni upphaflegu samþykkt um þetta merka verkefni, NPA, átti að samþykkja lög fyrir áramót. Það er náttúrlega mikill munur á því hvort þetta er lögfest eða hvort þetta tilraunaverkefni er framlengt. Ég á ekki von á öðru en að allir samþykki þetta fyrst svo er komið að ekki er hægt að leiða það í lög.

Í greinargerðinni segir að verkefnisstjórnin eða einhverjir telji að það þurfi meiri tíma og að eitt og annað þurfi að skoða betur. Mig langar til að spyrja ráðherrann: Á hverju strandar? Hverjir eru stóru þröskuldarnir við það að leiða þetta einfaldlega í lög? Nú veit ég að hæstv. ráðherra endurskipulagði verkefnisstjórnina og slíkt. Getur verið að það allt saman hafi tafið fyrir verkefnum? Hvernig stendur á því að seinka þarf því um tvö ár að færa þetta í lög?