144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti óhikað sagt nei. Þær breytingar sem ég gerði varðandi formennsku í verkefnisstjórninni eru ekki ástæðan fyrir því að ég tel rétt að taka undir tillögu verkefnisstjórnarinnar um að framlengja þetta brýna verkefni um tvö ár. Ég horfði sérstaklega til þess í sambandi við nýjan formann að velja starfsmann sem hefur starfað með og undirbúið vinnu verkefnisstjórnarinnar frá því að hún tók til starfa og raunar þurfti ekkert að uppfæra það að neinu leyti varðandi vinnu málsins.

Aðrar breytingar á verkefnisstjórninni hef ég ekki lagt til. Ég fór í gegnum það í ræðu minni hverjir sitja þar. Það sem ég benti líka á var að ef við horfðum til reynslu annarra þjóða þá hefði þetta einfaldlega tekið langan tíma. Ég vona að við þurfum ekki að horfa til jafn langs tíma og Norðmenn varðandi innleiðinguna. Það sýnir sig að sveitarfélag sem er stærst hér á landi, Reykjavíkurborg, tók ekki upp sína fyrstu samninga fyrr en í byrjun árs 2013. Eins og ég fór í gegnum þá er ákvæði hér sem snýr að vinnutíma starfsmanna í NPA, sem eru ábendingar sem hafa komið frá notendum og starfsmönnum til verkefnisstjórnarinnar. Það endurspeglar líka það sem menn hafa gert annars staðar á Norðurlöndum. Við þurfum einfaldlega að fá meiri reynslu af verkefninu þannig að það verði líka hluti af heildarendurskoðuninni á félagsþjónustulögunum og lögum um málefni fatlaðs fólks, sem er í gangi. Hv. þm. Willum Þór Þórsson leiðir þá vinnu og mér skilst að hún gangi mjög vel. Menn eru komnir á þann tímapunkt að fara að taka afstöðu til einstakra breytinga á lögunum og líka þess sem hefur verið mikið í umræðunni, þ.e. hvort ekki sé rétt að vera jafnvel með ein félagsþjónustulög (Forseti hringir.) sem málefni fatlaðs fólks falli undir.