144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, vonandi tekur þetta ekki jafn langan tíma og annars staðar á Norðurlöndum, enda getum við vonandi sótt eitthvað í þann reynslubanka sem þar hlýtur að vera um þetta efni.

Það kemur fram hérna, og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að áætlað sé að gera 61 samning á þessu ári. Nú spyr ég: Eru einhverjar vísbendingar eða er einhver vitneskja um að ef þetta væri á boðstólum fyrir alla þá sem þess æskja hvað samningarnir væru margir? Er verið að tala um helminginn af eftirspurninni eða fer þetta langt upp í að anna þeirri eftirspurn? Þetta er nú bara til fróðleiks.