144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[14:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu og ræða sérstaklega þann þátt er varðar notendastýrða persónulega þjónustu og kemur fram í frumvarpinu. Eitt af því sem mér finnst gott í frumvarpinu er um reglugerð sem taki á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum en ég tek undir með hv. formanni velferðarnefndar að ég tel að það þurfi í raun að ákveða að það verði sett reglugerð um þetta en ekki aðeins að það sé heimild til þess. Reglugerð verði sett og svo viðurlög við því ef það er brotið, ég veit ekki hvort þar þarf eitthvað umfram þau starfsmannalög sem eru í gildi, en þetta er náttúrlega viðkvæmur hópur sem við þekkjum að á oft erfitt með að verja sig þannig að það er mikilvægt að þessum skjólstæðingum, eins og hér er talað um, sé tryggð einhver úrlausn og þess gætt að hægt sé að leita einhverra leiða ef upp koma mál af þessu tagi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta sé fastsett í reglugerð en ekki bara að ráðherra sé það heimilt.

Hér hefur verið komið inn á hversu mismunandi þarfir fólks eru og NPA sé ein leiðin til að mæta þeim. Ég tel rétt að áfram sé boðið upp á margvísleg úrræði, ekki einungis NPA, en það var orðað þannig að það væri ein meginleiðin í þjónustu fyrir fatlað fólk. Maður hefur líka heyrt um aðra hluti sem kannski ganga misvel, og það er einmitt grein í Fréttablaðinu í dag þar sem segir frá því að fólk sem ákveður að þiggja þessa NPA-þjónustu þarf jafnvel sjálft að halda utan um allt er varðar viðkomandi aðstoðarmann, t.d. laun og ýmislegt fleira, fólk þarf þannig að hafa einhverja rekstrarkunnáttu og hæfileika, kunna að hafa mannaforráð og skila alls konar skýrslum og slíkt. Ég man einmitt eftir að hafa heyrt þetta í NPA-miðstöðinni þegar við fórum og fengum þar kynningu. Þetta væri eitt af því sem gæti reynst fólki fjötur um fót þegar það ákvæði að sækja sér þessa þjónustu. Þetta er í prinsippinu þannig að sá sem óskar eftir notendastýrðri persónulegri aðstoð auglýsir sjálfur og ræður sitt fólk í vinnu á móti því þegar sveitarfélögin sjálf sjá um þessa þjónustu eða hafa gert fram til þessa, fyrir utan þetta tilraunaverkefni, og hefur þá kannski ekkert um það að segja hverjir það eru sem þjónusta og hvenær þeir koma. Væntanlega er reynt að vinna úr því þannig að þjónusta sé veitt þar sem hennar er mest þörf en þá kemur auðvitað inn aðstoðin við hið daglega líf sem kannski hefur þótt einn helsti kostur notendastýrðrar persónulegu aðstoðar.

Ég hef líka velt fyrir mér í því sambandi: Hvað um þá sem sinna starfinu? Ef ég er aðstoðarmaður hjá fötluðum einstaklingi og er með honum í öllum aðstæðum þá getur það augljóslega reynt töluvert á. Mér dettur þetta í hug af því að við vorum að fjalla um túlkaþjónustu og þá var rætt um hvað þeir gerðu, hvað þeir þyrftu marga tíma, það þyrfti að sinna undirbúningi, úrvinnslu og ýmsu fleira. Það má velta því fyrir sér hvað fylgir því að vera í svona krefjandi starfi, að aðstoða einstakling í öllum aðstæðum. Ég velti fyrir mér, nú veit ég ekki hvort það er við lýði, hvort þessir aðilar eigi sér eitthvert athvarf einhvers staðar eða hvort gert er ráð fyrir því innan kerfisins, ef við getum sagt það, að þeir geti fengið aðstoð við það að pústa eins og við segjum. Það gæti verið gagnlegt, þó að fólk skiptist á og það sé kannski ekki einn og sami einstaklingurinn sem það sinnir alltaf, ég tala nú ekki um ef um er að ræða sólarhringsaðstoð. Mér finnst einmitt jákvætt að í frumvarpinu er verið að laga það, ákvæði með næturþjónustuna eða verið að opna á hana, en það er eitt af því sem hefur komið fram gagnrýni á að hafi vantað. En þetta er eitt af því sem mér datt í hug þegar ég var að lesa yfir frumvarpið.

Ég tek reyndar undir með ráðherra um að það borgi sig að framlengja tilraunaverkefnið. Ég held að það sé gott vegna þess að þjónustan er, eins og hér hefur komið fram, veitt á mjög mismunandi hátt. Það er kannski eitt af því sem þarf að samræma. Ég veit ekki alveg hvernig hægt er að gera það. Ég féll frá orðinu í andsvörum af því að annars hefði tíminn orðið svo lítill að litlu hefði verið hægt að svara, en ég vildi velta því upp hvort hæstv. ráðherra vissi hvaða hópum þetta hefði nýst best og hvað væri hægt að gera betur til viðbótar við það sem hér er lagt fram. Ég man líka að þegar við fórum í þessa heimsókn sem ég nefndi, af því að ég var að tala hér um starfsfólkið, að það var bent á að mikilvægt væri að mennta aðstoðarmenn sem sinna þessari vinnu. Mig langar að spyrja hvaða skoðun ráðherrann hafi á því og hvort það sé eitthvað sem hún sér fyrir sér að þurfi að gera.

Hér áðan var verið að spyrja um dreifingu á þjónustunni um landið. Maður hefur heyrt að þetta sé oft erfiðleikum bundið mjög víða þar sem t.d. vegalengdir eru miklar og oft ekki einfalt að koma til móts við þann sem sannarlega vill þiggja slíka þjónustu eða kaupa sér slíka þjónustu, það sé hreinlega ekki alltaf hægt að verða við því. Þá erum við auðvitað komin með ákveðinn ójöfnuð og órétt og ég held að við stöndum frammi fyrir því í hinum dreifðari byggðum eða getum gert það. Auðvitað geri ég ráð fyrir að reynt sé að leysa þau mál með einhverjum hætti. Ég velti fyrir mér Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í þessu samhengi af því að hér er talað um skiptinguna eða öllu heldur hvað þetta muni kosta sveitarfélögin og ég tek undir að það megi skoða, af því að ég sé að fjármálaráðuneytið virðist ekki hafa kannað sjálft þann kostnað sem fellur á sveitarfélögin heldur einungis velferðarráðuneytið, sem vissulega ráðfærði sig við samband sveitarfélaga. En ég segi eins og fleiri að ef samningar verða fleiri og fleiri vilja nýta sér þjónustuna, og með tilliti til þess sem ég sagði áðan um fjarlægðir og ýmislegt fleira, þá er alveg ljóst að það getur orðið mikill munur á milli sveitarfélaga sem veita þessa þjónustu. Sum sveitarfélög, stærðar sinnar vegna, geta lent í miklum útgjöldum vegna fárra einstaklinga en sveitarfélög sem eru ekki jafn stór og samgöngur eru alla jafna góðar og annað því um líkt, geta fyrir sambærilegar fjárhæðir veitt miklu fleiri aðilum slíka þjónustu. Ég spyr um þetta af því að ég veit ekki hvort jöfnunarsjóður kemur eitthvað að þessu. Það væri gott ef ráðherrann gæti svarað því og hvort hún viti hvort á einhverjum stað hafi hreinlega ekki verið hægt að veita slíka þjónustu vegna landfræðilegra aðstæðna eða slíks.

Ég tek undir með ráðherranum varðandi kjörna fulltrúa að þeir eigi að eiga þetta mál. Hafandi setið í sveitarstjórn þegar þessari tilraun var hrundið af stað þá veit ég að flestir félagsmálastjórar og fulltrúar þeirra innan sveitarfélaganna eru með þetta mál í fanginu og það verður kannski til þess að margir kjörnir fulltrúar átta sig ekki á eða setja sig oft ekki nægilega vel inn í þessi mál. Það er líka þannig úti á landsbyggðinni að kjörnir fulltrúar eru í hlutastörfum, þ.e. þeir sinna þessu með annarri vinnu og þá getur fólk sett sig misjafnlega mikið inn í mál. En þetta mál varðar auðvitað mannréttindi og þeir sem starfa í sveitarstjórnum eiga að gæta þess að þau séu virt og vera meðvitaðir um hvort aðstæður eins og ég var að rekja áðan geta komið upp í sveitarfélögunum.

Ég hef varpað nokkrum spurningum hérna fram og ég ætla ekki að hafa þetta lengra í 1. umr., en það er margt til bóta í frumvarpinu, sérstaklega ákvæðið sem snertir næturaðstoð og svo varðandi kynbundna áreitni.