144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég held að það sé mjög nauðsynlegt að það verði tekið inn í skoðunina á því hvernig NPA-verkefnið hefur gengið, kostnaðarþátturinn og hvernig hann skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur að vera markmiðið að gera þetta þannig úr garði að þjónustan verði sem best og standi á sem traustustum grunni.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í. Það er um fjölda samninga sem áætlað er að gera á þessu ári og aðeins fram í tímann á meðan á framlengingu þróunarverkefnisins stendur og það fjármagn sem ætlað er í þetta. Telur hv. þingmaður að verið sé að gera nógu mikið af samningum eða þurfum við að auka í með meira fjármagni annars vegar þannig að hægt sé að standa vel við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir og eins að fjölga þeim sem geta nýtt sér þetta þjónustuúrræði?