144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:24]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta tækifærið og svara nokkrum spurningum sem hefur verið beint til mín af þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir spurði hverjir nýttu NPA best. Ég tel að fyrrverandi velferðarráðherra, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, hafi að nokkru leyti svarað spurningunni þegar hann talaði um að uppleggið varðandi NPA hjá verkefnisstjórninni hefði verið að hafa þetta sem opnast til að fá reynsluna og geta í framhaldinu metið hverjum þessi þjónusta nýttist best. Við höfum séð dæmi um fólk með alvarlega líkamlega fötlun, fólk með þroskaskerðingu og jafnvel börn þar sem foreldrar hafa tekið að sér þessa þjónustu. Nánari upplýsingar verður væntanlega hægt að fá í meðförum nefndarinnar beint frá verkefnisstjórninni.

Ég vil líka taka undir það sem ég tel að þrír þingmenn hafi komið inn á, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Guðbjartur Hannesson, þegar þau töluðu um staðla eða gæði, hvernig væri hægt að tryggja gæðin í þjónustunni. Það er eitt af því sem hefur verið mér mjög hugleikið frá því að ég tók við embætti og er meginástæðan fyrir því að ég ákvað að setja á stofn svokallaða stjórnsýslunefnd um að koma með tillögur að nýrri stjórnsýslustofnun á sviði félagsþjónustu og barnaverndar. Upplifun mín þegar ég tala við fólk sem sinnir þessum mikilvægu verkefnum og þessum viðkvæmu einstaklingum er sú að það telur sig vera að gera eins vel og það getur en það hefur ekkert til að bera sig saman við. Það eru engin skilgreind viðmið. Við erum með ákveðin gæðaviðmið í barnaverndinni en þegar kemur hins vegar að félagsþjónustunni almennt og málefnum fatlaðs fólks, sem er orðinn stór málaflokkur, þá virðumst við ekki hafa þau tæki. Við sjáum til dæmis það sem var nefnt hér og hefur verið að gerast undanfarnar vikur og snýr að ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Það er eins og skorti tæki í löggjöfinni. Viðmiðin eru ekki skilgreind nægilega vel og það hvernig við eigum að bregðast við. Við höfum fengið ábendingar frá öðrum þjónustusvæðum þar sem við teljum að Reykjavíkurborg hafi ekki uppfyllt þau lög sem Alþingi hefur sett. Ráðuneytið er raunar núna að vinna að og móta það með viðkomandi þjónustusvæðum hvernig sé hægt að tryggja það að þjónustunni verði fylgt eftir og gæðin verði sem best. NPA er hluti af þeirri fjölþættu þjónustu sem sveitarfélög veita fötluðu fólki og öðrum hópum.

Við erum komin svo miklu lengra þegar við horfum til dæmis til gæðaviðmiða í menntakerfinu, kröfur til grunnskólanna, framhaldsskólanna, háskólanna og leikskólanna, þar sem við gefum út þykka doðranta sem við köllum námskrár um það hver gæði menntunar eiga að vera. Við erum með skilgreind gæðaviðmið í heilbrigðisþjónustu og mjög öflugt eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sé í lagi. En þegar kemur hins vegar að félagsþjónustunni þá höfum við ekki verið með sambærilegan ramma. Það er algert lykilatriði að þróa þetta og skerpa á þessu. Það er kannski ástæða fyrir því að menn hafa ekki viljað taka stærri skref. Við ræddum það töluvert í umræðu um málið sem var fyrr á dagskrá hér í dag að við hefðum horft mikið til svokallaðs sjálfræðis sveitarfélaganna, að við mættum ekki skerða það. Við erum hins vegar að setja mjög nákvæmar reglur varðandi aðra þjónustu sem sveitarfélögin veita. Af hverju gildir það ekki um okkar viðkvæmustu einstaklinga að setja skýrar reglur um hvað sveitarfélögin mega og mega ekki gera? Þegar ég segi þetta legg ég líka mjög mikla áherslu að við hlustum á raddir sveitarstjórnarmannanna, á reynslu þeirra frábæru embættismanna og starfsmanna sem sinna þessum verkefnum til að við gerum þetta eins vel og hægt er. Við verðum einfaldlega að þróa þetta áfram. Yfirfærslan á málefnum fatlaðs fólks hefur svo sannarlega gert það að verkum að þetta hefur ítrekað komið upp á borðið hjá okkur í velferðarráðuneytinu og víða annars staðar.

Síðan held ég að ég taki einfaldlega undir það sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagði þegar hann talaði um samning Sameinuðu þjóðanna varðandi réttindi fatlaðs fólks. Það er verið að vinna að því að innleiða hann. Innanríkisráðherra er meðal annars með frumvarp sem tekur á ákveðnum þáttum og heldur utan um það mikilvæga verkefni.

Spurningin sem sneri að samræmi við stéttarfélögin — ég fagna því að fá tækifæri aftur til að fara í gegnum það mál. Frumvarpið sem sneri að þessum ákvæðum var unnið í óformlegum vinnuhópi þar sem ASÍ, SA, BSRB, BHM, sambandið og fjármálaráðuneytið eiga fulltrúa, þeir aðilar sem við köllum í daglegu tali aðila vinnumarkaðarins. Ég skal alveg viðurkenna að ég hafði áhyggjur af þessu ákvæði þegar það kom á borðið hjá mér. Ég óskaði í framhaldinu eftir sérstökum fundi með fulltrúum þessara samtaka og stofnana til að heyra það sjálf að þetta væri eitthvað sem menn teldu að væri skynsamlegt að gera, sérstaklega í ljósi þess sem ég tel að sé eitt af því sem nefndin þurfi að fara mjög vel yfir. Við vorum að tala um, eins og fram kom í grein sem var vitnað í og ég held að hafi verið í Fréttablaðinu í dag eða gær, þær miklu kröfur sem felast í því að taka að sér það verkefni að vera atvinnurekandi og halda utan um vinnu starfsmanna. Það er oft ungt fólk sem sinnir þessum störfum og það hefur litla reynslu af því að vera á vinnumarkaði. Það er líka mikil nánd í veitingu þessarar þjónustu. Það þarf því að gæta bæði að þeim sem þiggja þjónustuna og þeim sem veita hana. Þess vegna var bætt við þeim varnagla að Vinnueftirlitið yrði að veita umsögn um samkomulagið sem aðilar vinnumarkaðarins kæmu að og að þjónustan yrði að vera tengt þessu tilraunaverkefni.

Ég vil ítreka að það er réttur skilningur sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur. Við ætlum okkur að lögleiða NPA, það er alveg á hreinu. Við viljum gera það vel. Við erum nú í þessari miklu vinnu. Það hefur gífurlega mikið gerst í þessum málaflokki á undanförnum árum, mikil framþróun. Ég held að að mörgu leyti hafi lagaumhverfið ekki náð í skottið á þeirri þróun enda erum við á fullu í vinnu sem hv. þm. Willum Þór Þórsson leiðir og snýr að endurskoðun á lögunum til að þau verði meira í samræmi við þá þróun.