144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[15:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um hvort líta eigi á umsögn fjármálaráðuneytisins sem ógn eða stuðning. Ég held að það geti verið hvort tveggja því að auðvitað getum við látið þessum tilraunaverkefnum algjörlega fatast flugið með því að skammta fjármunina í þau svo naumt að aldrei verði neitt úr þeim, þjónustan verði aldrei þannig að fólk geti sætt sig við hana eða sæki í hana og þar með verði tilraunin dauðadæmd í rauninni frá upphafi. Ég veit ekki hvað skal segja. Ég er hrædd um þetta sé vanfjármagnað eins og þetta lítur út núna þrátt fyrir annars góð markmið með frumvarpinu og því að festa þetta í sessi sem þjónustuform til frambúðar.

Varðandi það af hverju við erum ekki að læra af öðrum Norðurlandaþjóðum eða taka tillit til reynslu þeirra þá er erfitt að svara því og kannski er margt í mörgu þar. Ég held að eitt af því sé viðhorf okkar almennt sem þjóðar til fatlaðs fólks og samfélagsþátttöku fólks með ýmiss konar skerðingar. Þar held ég að við séum talsvert á eftir nágrannaþjóðum okkar og við séum enn föst í mikilli forræðishyggju þegar kemur að lífi fatlaðs fólks og finnist við þurfa að hugsa í sérgreindum lausnum þegar ýmis önnur lönd eru komin miklu lengra í því að samþætta hluti þannig að fatlað fólk geti tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra.