144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hv. forseti. Já, málaflokkur fatlaðs fólks var vissulega fluttur frá ríki til sveitarfélaga og ein rökin voru einmitt þau að sveitarstjórnirnar væru nær fólkinu sem þyrftu á aðstoð að halda. Það er að sumu leyti rétt. Ég tek alveg undir það. Hins vegar getur nándin líka skapað ákveðin vandamál, sérstaklega í mjög fámennum samfélögum þar sem einn einstaklingur getur vegið alveg óskaplega þungt í fjárhagslegu bókhaldi sveitarfélagsins. Það getur jafnvel orðið til þess að fólk veigri sér við að leita eftir þeirri þjónustu sem það hefur rétt á lögum samkvæmt. Hér er því svolítið erfiður línudans. Það held ég að sé staðreynd.

Varðandi hvernig þetta er í öðrum löndum er það eftir því sem ég best veit ansi mikið þannig að allur gangur er á því. Ég hef ekki skoðað það neitt nýlega hvernig þetta er, en eftir því sem ég best veit hafa Norðurlöndin til dæmis talsvert ólíka umgjörð um það hvernig þau veita NPA og hver það er sem borgar fyrir það. Ég tel mig þó vita að sums staðar sé sú leið farin að sveitarfélagið borgi fyrir ákveðið marga tíma og svo fari það eftir því hversu marga tíma í aðstoð hver einstaklingur fær, þá borgi ríkið afganginn en það sé alltaf sveitarfélagið sem hafi ákveðinn grunn.

Mér finnst að vegna smæðar okkar og smæðar sumra sveitarfélaga sé það eitthvað sem við eigum að skoða, hvort (Forseti hringir.) það mundi passa okkur.