144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er kannski tvennt sem mig langar að ræða við þingmanninn og það fyrra er um það sem hann var að enda við að segja og varðar kannski það hlutverk sem sá sem er með fötlun og ákveður að kaupa sér þessa þjónustu stendur frammi fyrir. Vinnueftirlitið þarf að taka út heimili viðkomandi því að það þarf að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til hans sem vinnuveitanda og honum ber að tryggja stöðu þess sem er ætlað að sinna honum. Ég held að það geti verið góð hugmynd sem hv. þingmaður nefndi að hafa samlag um stjórn og einhvern sem sér um starfsmannahald því að ég held að þetta geti verið mjög erfitt fyrir hvern og einn eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns og við deilum þeirri skoðun. Ég held meira að segja að það geti verið þannig að einhverjir veigri sér við að fá sér slíka aðstoð hreinlega vegna þess að utanumhaldið geti verið svo flókið.

Í öðru lagi velti ég fyrir mér fjárhæðunum, en ég fór að lesa reglur hjá einu sveitarfélagi um þessa þjónustu sem voru samþykktar síðastliðið vor. Þar er miðað við að greiðsla fyrir hverja klukkustund sé að hámarki 2.943 kr. Þetta er jafnaðargreiðsla. 85% af þeirri fjárhæð á að vera vegna alls launakostnaðar til aðstoðarmanns eða 2.502 kr. 5% eða 147 kr. eru til að mæta kostnaði vegna aðstoðarmanns og 10% eða 294 kr. vegna umsýslukostnaðar. Nú þarf sá fatlaði að greiða af þessum 2.943 kr. öll gjöld sem fylgja því að vera launagreiðandi og þá veltir maður því auðvitað upp: Er þetta fjárhæð sem verður þess valdandi að einhver vill og sækir í þessi störf?