144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég tek undir þetta. Þegar við ráðum til okkar fólk í vinnu og það getur verið um ýmiss konar hömlun að ræða þá getur ekki hver sem er sinnt starfinu sem þýðir að það er kannski ekki val um mjög marga. Fólki ber að auglýsa sjálft eftir aðstoðarmanni og það er ekki víst að hver sem er geti sinnt því sökum fötlunarinnar og það gæti þurft að fá til þess aðila sem það vildi kannski síður, bara vegna þess að ekkert annað býðst. Það vildi jafnvel frekar kjósa einhvern af sama kyni en af gagnstæðu en það er ekki víst að það standi til boða.

En það sem ég var líka að velta upp þegar ég fór yfir þessar tölur er mismunurinn á milli svæða, þ.e. að sveitarfélögum ber ekki að greiða einhverja X fjárhæð heldur er þeim í sjálfsvald sett hvað þau borga fyrir þjónustuna og þurfa að meta það. Það er kannski það sem ég hef áhyggjur af, það er ójöfnun (Forseti hringir.) í kerfinu sem fer kannski frekar eftir stöðu sveitarfélaga en þörfinni hjá viðkomandi.