144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það þannig náttúrlega að 20% renna beint til sveitarfélaganna og 80% fara í jöfnunarsjóðinn og deilast út með þarfagreiningunni. Þetta er auðvitað sjaldgæflega hátt hlutfall til jöfnunar og það stafar af því hversu kostnaðinum getur verið gríðarlega misskipt og hann komið með mjög tilviljanakenndum hætti niður á sveitarfélögum, eins og ég rakti áðan í ræðu minni.

Ég sé óþægileg dæmi frá ýmsum sveitarfélögum úti um land um mat á þjónustuþörf annars vegar og raungreiðslur hins vegar. Það er óþægilega mikið ósamræmi þar á milli. Ég held að þetta sé hlutur sem þarf að hugsa, hvort þetta séu afmörkuð einstök dæmi eða hvort það séu fleiri dæmi um slíkt. En það er að sjálfsögðu erfitt að láta meira en 80% renna í jöfnunarsjóðinn, auðvitað er hægt að láta þetta allt renna til jöfnunar en þá er eiginlega komin nokkur ríkisútjöfnun á þetta og kannski minna innihald í því að það sé raunverulega þannig að þjónustan sé á forræði sveitarfélaganna.