144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar að leggja orð í belg um þetta frumvarp. Þó að ég hefði, eins og ég gat um í andsvari fyrr í dag, gjarnan viljað að verið væri að lögfesta þessa notendastýrðu þjónustu frekar en að framlengja tilraunaverkefnið, þá er þetta ánægjulegt frumvarp frá hæstv. félagsmálaráðherra, sem kemur með þessu fororði þó. Því miður er ekki mikið um ánægjuleg frumvörp frá ríkisstjórninni, þannig að út af fyrir sig ber að fagna því.

Það eru laumufarþegar í frumvarpinu eins og stundum er, svona til að nota ferðina mætti kalla það, en það eru líka atriði sem engin ástæða er til að andskotast út í heldur kannski hið gagnstæða. Það er sem sagt að koma eigi því inn í lög að það eigi — virðulegi forseti, nú ruglaðist ég alveg í ríminu af því það blikkar á mig, en ég treysti forseta til að leiðrétta það þó síðar verði.

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður hefur 15 mínútna ræðutíma þannig að það er vel eftir af honum. Ég skal reyna að gera gangskör að því að stilla klukkuna.)

Það á sem sagt að bæta inn í lögin orðum um aðgerðir gegn einelti og kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Það er hið besta mál og ég hef sannarlega ekkert við það að athuga, það er ágætur laumufarþegi í frumvarpinu. Ég nefni einnig 2. gr. þar sem sagt er að ef Vinnueftirlitið geri athugasemdir þá eigi það að vera skriflegt og fyrirtæki og atvinnurekendur eigi síðan að tilkynna Vinnueftirlitinu um að þeir hafi látið gera þær úrbætur sem Vinnueftirlitið hafði krafist. Þetta er einnig hið ágætasta mál.

3. gr. varðar það að víkja megi frá hefðbundnum reglum um vinnutíma og hvíldartíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þjónustu á grundvelli samstarfs þessa verkefnis um notendastýrða persónulega aðstoð. Það er mjög skiljanlegt, finnst mér, að það þurfi að leita eftir þessu. Þessi þjónusta, það starf sem það er þá, að veita fötluðu fólki sérstaka persónulega aðstoð, og er ekki hægt að fara alveg með það eftir klukkunni. Það getur reynt á hinar ströngu reglur um hvíldartíma og næturvinnutíma. Ég skil mjög vel að reyna þurfi að liðka aðeins til í þeim efnum. Á hinn bóginn finnst mér skipta gríðarlega miklu máli að þar verði líka farið að með fullri gát þannig að ekki verði hægt að ganga á réttindi starfsmannanna.

Í því sambandi ber kannski líka að hafa í huga það sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna fyrr í dag, og það mun vera staðreynd, að margt af því fólki sem starfar við þetta er einmitt ungt fólk. Það er nú þannig með ungt fólk að það þekkir oft ekki réttindi sín og því er kannski meiri hætta á að gengið sé á þann rétt. Þó að starfið sem innt er af hendi sé göfugt — ég veit ekki hvort rétt er að nota það orð, forseti — þá þýðir það ekki að ekki geti verið hætta á því að gengið verði á réttindi starfsfólks. Það skiptir því gífurlega miklu máli, um leið og ég skil að það þurfi að setja þessa grein og ganga frá þessu, að farið verði með fullri gát og starfsfólkið þarf að þekkja rétt sinn í öllum efnum.

Almennt má segja um frumvarpið að þetta er gífurlega mikilvægt mál. Það er erfitt fyrir okkur sem göngum heil til skógar og getum gert allt það sem okkur langar til, ef svo má segja, þegar okkur langar til, að ímynda okkur hvað þetta hlýtur að vera mikil breyting. Þetta getur breytt lífi þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda.

Mig langar aðeins að nefna líka, sem einhverjir hafa gert á undan mér, þetta orðalag, það er nú kannski smáatriði í þessu öllu saman. En í frumvarpinu, eins og það kemur fyrir, segir að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um þessa þjónustu. Ég vil nú taka undir með þeim sem hafa sagt hér á undan mér að þetta ætti frekar að orðast á þann veg að hæstv. ráðherra skuli setja reglugerð. Ég vildi beina því til nefndarmanna í velferðarnefnd að þeir geri breytingu á því. Þá fer það ekkert á milli mála að það er á ábyrgð ráðherrans að setja reglugerð um helstu atriði sem þurfa að vera á hreinu ef þannig má að orði komast.

Það hefur líka komið fram í ræðum sem hafa verið fluttar hér á undan, og mér finnst það skipa nokkru máli, að verið er að framlengja tilraunaverkefni til að bæta umgjörðina. Hæstv. ráðherra hefur sagt það mjög skýrt hér fyrr í dag að ætlunin sé að leiða þetta í lög eins og við höfðum ákveðið á Alþingi. Við höfðum reyndar ákveðið að það ætti að gerast fyrr, ekki síðar en í lok ársins 2014, og nú er því seinkað til ársins 2016, en það á sem sagt að gera það.

Ég velti fyrir mér hvers vegna, bara til að tekinn sé af allur vafi. Ég fellst alveg á að það þarf að undirbúa þetta vel og það á ekki að flana að neinu og það er betra að þekkja málið vel áður en lögin eru sett. Ég velti samt fyrir mér af hverju ekki er hægt að setja lögin og taka fram að þau taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017 eða eitthvað svoleiðis, þannig að það sé búið að negla það alveg niður, að það sé þá lögfest, að þessi þjónusta standi til boða 2017; þá sé tilraunaverkefninu lokið og þá eigi fatlað fólk lagalegan rétt á því að fá þessa þjónustu sem það hefur ekki í dag. Það getur sótt um hana undir formerkjum þessa tilraunaverkefnis. Ég hefði frekar viljað sjá það.

Þá má líka segja, til að vera ekki alltaf á neikvæðu nótunum, að fyrst þetta er ekki gert þannig má kannski líta á það með jákvæðum huga að því leytinu til að hugsanlega gengur þetta vel, þetta tilraunaverkefni, og hugsanlega lýkur vinnunni fyrr og þá gætum við hugsanlega átt von á frumvarpi fyrr og gætum bundið þetta í lög um mitt ár 2016. Það getur ekki verið að það sé neitt sem banni það að við verðum fyrr á ferðinni en hér er gert ráð fyrir.

Aðrir hafa hér á undan mér nefnt það sem kemur fram í fylgiskjali II, sem er umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar kemur fram að það vantar 85 milljónir, held ég að það sé, til að hægt sé að fjármagna verkefnið út árið 2016. Það setur nokkurn ugg að mér með það. Hæstv. ráðherra segir að hún ætli að sækja þessa peninga, en það væri þá ánægjulegt ef hún gæti gert það fyrr en síðar og fengið staðfestingu á því og sagt frá því hér í þinginu þegar það tekst að þessir peningar standi til boða.

Það er staðreynd að það er ýmislegt í ráðuneyti hæstv. ráðherra sem gerir mann svolítið uggandi um að henni takist alltaf að sækja þá fjármuni sem maður mundi halda að félagsmálaráðherra gjarnan vildi. Við sjáum að atvinnuleysistímabilið var stytt um hálft ár bara svona allt í einu, með 11 daga fyrirvara eða eitthvað svoleiðis, og alveg ljóst að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar eru ekki á sviði félagsmála, ég held að við getum öll verið sammála um að svo er ekki. Þess vegna væri ánægjulegt ef ráðherrann gæti sem fyrst staðfest að þessar 85 milljónir fáist örugglega á næsta ári þannig að þá verði hægt að bjóða út 61 samning eins og kemur fram að ætlunin er.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki um þetta fleiri orð að sinni og hef lokið máli mínu.