144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[16:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún endaði hana á að hafa ákveðnar áhyggjur af því hvernig ætti að fjármagna árið 2016 í þessum samstarfssamningi. Ég sé í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármálaráðuneytinu að veitt hafi verið 50 millj. kr. framlag til þessa verkefnis árið 2011, 100 millj. kr. árið 2012 og loks 150 millj. kr. árið 2013, en í fjárlögum árið 2014 hafi fjárheimildir til verkefnisins verið felldar niður þannig að einungis stóðu eftir uppsafnaðar fjárheimildir áranna 2011 og 2013. Einungis er um að ræða framlag ríkissjóðs, en sveitarfélögin hafa fram til þessa greitt 80% af kostnaði við NPA samning á móti 20% kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs. Í því ljósi langar mig að spyrja, þar sem ekki var haldið áfram að fjármagna verkefnið fyrir árið 2014, hvort ekki sé fullt tilefni til að hafa áhyggjur af fjármögnun þessa hluta fyrir árið 2016 þó að hæstv. félagsmálaráðherra hafi lýst vilja til þess að það yrði gert, hvort þetta geti ekki valdið áhyggjum og ótta þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta og umhugsunar líka hjá stjórnendum sveitarfélaga hvernig ríkið ætlar að standa við sinn hlut.