144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að þetta séu ekki há laun sem í boði eru fyrir þessi störf. Það er alveg ljóst. Umönnunarstörf hafa svo sem ekki verið mjög vel launuð hér á landi og ekki virðist það batna með þessu. Samt sem áður vil ég ekki detta í þann farveg að segja að þetta sé allt ómögulegt af því að launin séu lág, hitt og þetta sé lágt, vegna þess að þetta er held ég svo mikið framfaraskref í því hvernig þjóðfélagið ætlar að koma fram við fatlað fólk að við þurfum fyrst og síðast að líta á það, en launin eru sannarlega ekki há. Það kom fram fyrr í dag að það sé aðallega kannski ungt fólk sem fari í slík störf. Það er náttúrlega út af því hvað launin eru lág. Það er svolítið asnalegt, virðulegi forseti, að nota slík rök, en hitt er hins vegar staðreynd að fólk sem vill taka að sér svona störf er oft tilbúið að gera það af því að eðli starfsins og fólkið sem tekur að sér er þannig að það fær ánægju út úr starfinu og vingast við þann sem það er að aðstoða, hjálpa og svona. Það eru auðvitað ekki rök, virðulegi forseti, fyrir því að borga lág laun, en það er hins vegar (Forseti hringir.) kannski út af hinu sem maður getur vonað að einhverjir fáist til að vinna (Forseti hringir.) fyrir þessi laun.