144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þarna eigi að standa „skal“, að þetta eigi að vera skylda en ekki heimild. Mér skildist að reglugerðarsmíðin væri langt komin í ráðuneytinu — hæstv. ráðherra mun þá geta leiðrétt það í lok umræðunnar ef það er vitleysa hjá mér — en að hæstv. ráðherra hefði ekki heimild til að gefa hana út vegna þess að ráðherra getur náttúrlega ekki gefið út reglugerð um það sem henni dettur í hug þann daginn, hún þarf að hafa heimild í lögum til þess að setja reglugerð. Jafnvel þótt það sé þannig að hún sé fyrst og fremst að leita heimildar til að setja reglugerð sem er meira og minna tilbúin á borðinu hjá henni finnst mér að þarna eigi að standa „skal“. Auðvitað hlýtur það að vera, ég trúi nú ekki öðru en að slík reglugerð sé sett að höfðu samráði við þá sem nota þjónustuna. Þetta tilraunaverkefni er búið að vera í gangi í eitt eða tvö ár eða jafnvel lengur, að minnsta kosti í tvö ár, og þá hlýtur að mega nota þá reynslu í reglugerðarsmíðina. Ég hef svo sem ekki meira um það að segja að sinni.