144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:12]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég held ég geti bara tekið undir með henni og bætt við þá hvatningu að nefndin athugi orðalagið. En ég hef sömu tilfinningu og hv. þingmaður fyrir þessari vinnu, ég held að það sé almennt gott samráð á bak við hana. Það er gott að heyra að vinnan við reglugerðina sé langt komin.

Síðara atriðið sem ég velti fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann út í varðar fjárhæðirnar og fjölda samninga. Ég geri mér grein fyrir því að við erum þá kannski komin dálítið inn í framtíðarmúsikina sem við erum augljóslega ekki komin að í vinnunni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að framlengja tilraunaverkefnið. En komið hefur í ljós við innleiðingu á verkefninu og þegar hefur verið auglýst eftir samningum hjá sveitarfélögunum að það er mikil eftirspurn. Mig langar að heyra hvaða álit hv. þingmaður hefur á þörfinni og hvert við stefnum eða hvert við ættum að stefna í fullkomnum heimi þegar kemur að þessari þjónustu.