144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það væri gaman ef við værum í fullkomnum heimi. Við erum það nú ekki en við virðumst stundum hugsa svolítið líkt, ég og hv. þm. Óttarr Proppé, vegna þess að ég spurði ráðherra fyrr í dag hvort eitthvað væri vitað um hver eftirspurnin væri. Nú er talað um að fjármagna 61 samning og ef allir fengju sem vildu, um hversu margt fólk er þá verið að tala? Hæstv. ráðherra sagðist ekki hafa þær upplýsingar. Hún sagði að erfitt væri að áætla það vegna þess að það hefði verið misjafnt hjá þeim sveitarfélögum sem farið hefðu af stað með þetta verkefni. Sums staðar hefði verið auglýst. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að vitna í Reykjavíkurborg þar sem hann þekkir miklu betur til en ég og að þar hafi komið í ljós að miklu fleiri hafi viljað en gátu fengið. En í öðrum sveitarfélögum mun það hafa verið þannig að fólk var pikkað út, ef ég má orða það svo. Þannig skildi ég það alla vega.

Ég held að það hljóti að vera alveg ljóst að þetta er bara fyrsta skrefið. Kannski hentar þetta ekkert öllum. Kannski fer fólk inn í þetta og svo hentar það því ekki og fer þá út úr því aftur. Ég á nú von á því að umfangið muni bara aukast og þá er það fjárveitingavaldsins að sjá til þess að séð verði fyrir þessari þjónustu. Ég segi það alveg eins og er, þó að að maður eigi ekki að slá á létta strengi varðandi svona alvarlegt mál, að ég treysti nú öðrum betur til þess að útvega þá peninga en þeim sem nú eru við stjórn.