144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um afar mikilvægt mál að ræða. Þetta frumvarp fjallar um að setja reglugerð varðandi einelti á vinnustöðum, kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og síðan um NPA-þjónustuna. Ef það verður samþykkt mun það bæta lífsgæði margra. Þótt nefndin þurfi að skoða ýmislegt betur held ég að í heildina tekið sé um mjög gott mál að ræða.

Ég vil eins og aðrir taka undir og hvetja hv. þingmenn sem sitja í velferðarnefnd til að koma með breytingartillögu um að í a-lið 1. gr. standi að það eigi að setja reglugerð í staðinn fyrir að það sé heimilt. Rökin fyrir því koma reyndar fram í greinargerðinni um þessa grein. Þar er fjallað um að árið 2010 hafi ríkisstjórn samþykkt greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum og að árið 2011 hafi verið skipuð nefnd til þess að vinna tillögur. Hlutverk nefndarinnar var að endurskoða ákvæði í lögum og reglugerðum sem fjalla um einelti á vinnustað, þar á meðal kynferðislega áreitni. Jafnframt er nefndinni ætlaði að fjalla um efni rammasamnings aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvísu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum. Nefndin var skipuð færu fólki sem kemur víða að og þekkir til málsins og niðurstöður eru komnar. En til þess að nýja reglugerðin, sem hefur verið smíðuð á grundvelli niðurstaðna þessarar nefndar, geti tekið gildi þá þarf lagastoð. Það er því áríðandi að þetta ákvæði sé skylda en ekki heimild vegna mikilvægis málsins.

Í V. lið í skýringum með frumvarpi kemur mikilvægi málsins mjög skýrt fram. Þar kemur fram að reglugerðin sé í rauninni tilbúin og gert sé ráð fyrir því að hún sé í samræmi við 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem eitt af markmiðum laganna er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í 22. gr. sömu laga er lögð áhersla á skyldu atvinnurekenda sem og yfirmanna stofnana og félagasamtaka til þess að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar eða skjólstæðingar verði fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, á stofnun, í félagsstarfi eða í skólum. Áreitni sem tengist kynferði einstaklings og kynferðisleg áreitni er andstæð meginreglum um jafna meðferð kvenna og karla og því er rétt að þess háttar mismunun sé skilgreind og úrræði séu til staðar telji starfsmaður sig hafa orðið fyrir slíkum brotum.

Ég held, virðulegi forseti, að við þekkjum öll til eineltis á vinnustað, hvort sem það tengist kynferðislegri áreitni eða öðru. Við þekkjum neikvæð áhrif þess. Í greinargerðinni er fjallað sérstaklega um neikvæð áhrif kynferðislegrar áreitni og heilsu. Þau geta verið margvísleg og þolendur þjást oft af miklu andlegu álagi og streitu sem getur leitt til kvíða og þunglyndis sem getur meðal annars haft áhrif á getu þeirra til að stunda vinnu. Þetta er mjög alvarlegt. Það er ekki síst út af alvarleika málsins sem mikilvægt er að hv. velferðarnefnd komi með breytingartillögu um að það verði ekki aðeins heimilt að setja reglugerð um þessi mál heldur verði það skylda.

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Brynju Bragadóttur. Sagt er frá því að hún fjalli um vinnustaðaeinelti á markþjálfadeginum í dag. Hún segir að samkvæmt erlendum rannsóknum sé algengast að yfirmenn hefji einelti á vinnustað. Mér finnst þetta vera magnaðar upplýsingar. Hún segir að einelti á vinnustað geti viðgengist lengi áður en starfsmaður sem verður fyrir því gefist upp eða sé látinn fara og oft sé það þannig. Erlendar rannsóknir sýni að í 70% tilfella séu það yfirmenn sem hefji eineltið og aðrir starfsmenn dragist inn í það en tilgangurinn sé oftast að losna við starfsmann sem yfirmanninum líki ekki við, þá sé farin þessi leið.

Brynja Bragadóttir segir, með leyfi forseta:

„Þeir sem leita til mín segja margir sömu söguna, að einelti hafi byrjað með einum stjórnanda en hafi svo undið upp á sig og orðið að fjölelti. Það er þegar fleiri á vinnustaðnum taka þátt í eineltinu sem svo veldur því að starfsmaðurinn er kominn út í horn og á engra annarra kosta völ en að segja upp, ef honum hefur þá ekki í millitíðinni verið sagt upp.“

Fólkið sem leitar til Brynju er að byggja sig upp eftir einelti og á í mörgum tilfellum mjög erfitt með að fá aftur vinnu eftir eineltið. Í blaðinu er haft eftir henni, með leyfi forseta:

„Það skaðar svo starfsframann að lenda í þessu. Neikvætt orðspor getur fylgt fólkinu áfram á litlum vinnumarkaði, það er erfitt að fá meðmæli frá vinnuveitanda af því að á vinnustaðnum er eineltið afsakað með því að viðkomandi hafi verið uppspretta vandans og í þriðja lagi er erfitt að útskýra starfslokin á fyrri vinnustað.“

Síðan kemur fram að samkvæmt íslenskum vinnustaðakönnunum telji 5% starfsmanna sig hafa orðið fyrir einelti.

Brynja talar um að allir geti lent í þessum aðstæðum, ekki síst flottir starfsmenn, segir hún, sem skari fram úr og standi sig betur en aðrir, enda veki þeir öfund og óöryggi. Hún segir: Helsta vopnið í eineltisumræðunni vera fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðir. Fyrsta skrefið er að fræða og þá sjá kannski stjórnendur ýmislegt sem betur má fara á vinnustaðnum. Þegar þeir eru orðnir meðvitaðir kemur hvatningin til að vilja breyta, t.d. gera vinnustaðamenninguna heilbrigðari.

Virðulegi forseti. Margir vinnustaðir hafa samið starfsmannastefnu og reynt að draga inn í hana hvernig eigi að bregðast við einelti og búa til ferla innan vinnustaðarins, en mikið betra væri að fá góða reglugerð um þessi mál.

Nú er það svo að þó erlendar rannsóknir sýni að í 70% tilfella hefji yfirmenn einelti á vinnustað, og ég dreg ekki í efa að það eigi líka við hér á landi, þá þekkjum við líka að starfsmenn leggja reglubundið einhvern í starfsmannahópnum í einelti og stjórnendur fá ekki rönd við reist. Það er því miður þannig að þeir sem eru fullorðnir og hafa stundað einelti lengi eru mjög flinkir í því. Þeir vita hvernig á að komast upp með eineltið, passa sig á því að vera alltaf góðir við ákveðinn hluta starfsmanna sem mundu þá alltaf bera í bætifláka fyrir þá og taka upp hanskann fyrir þá og þegja meðan eineltið á sér stað. Þetta er hættulegt. Það er mikilvægt að fá stuðning með góðri reglugerð hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Þó að mest hafi hér verið talað um NPA-verkefnið, sem er líka mjög mikilvægt, þá finnst mér ekki síður mikilvægt að setja í lög reglugerð varðandi einelti og ofbeldi, hvort sem það er kynferðislegt eða með öðrum hætti á vinnustað. Ég tel lykilatriði að það sé skylda að setja reglugerð með viðmiðum til þess að vinna eftir.

Hér í dag hefur verið talað um NPA-þjónustuna. Þó þetta sé tveggja ára tilraunaverkefni hér á landi þá er áralöng reynsla af þessu. Það kemur fram í greinargerð og athugasemdum við lagafrumvarpið. Það er áratugareynsla af notendastýrðri persónulegri þjónustu og aðstoð annars staðar á Norðurlöndum, sérstaklega í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Auðvitað er þetta framkvæmd með mismunandi hætti í löndunum. Í Noregi hefur aðstoðin verið til staðar allt frá 1990 og svo lögleidd árið 2000, í Svíþjóð frá 1992 og í Danmörku var byrjuðu tilraunir með notendastýrða persónulega aðstoð upp úr 1970. Það er hægt að leita til annarra Norðurlandaþjóða eftir reynslu og við getum lært af þeim.

Í umræðum hér í dag hafa menn velt fyrir sér hvernig standi á því að við getum ekki tekið reynslu frá öðrum Norðurlandaþjóðum sem er svona mikil og gerðar hafa verið greinargerðir um. Í frumvarpinu kemur meðal annars fram að á árin 2008 framkvæmdu Svíar kostnaðar- og samfélagsgreiningu á notendastýrðri persónulegri aðstoð og þar kom fram að úrræði hefðu aukið svo um munaði lífsgæði fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra. Praktískar upplýsingar um framkvæmd hlýtur að vera að finna í fórum þeirra í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Við ættum því að leita til þeirra. Það vantar samt svolítið upp á, eins og fram hefur komið í umræðum í dag, menninguna hjá okkur, hvernig við lítum á þjónustu við fatlaða og hverju við erum vön hér. Það getur verið erfitt fyrir okkur að brjótast út úr þeirri hefð.

Virðulegi forseti. Í 3. gr. frumvarpsins er talað um að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að víkja frá ákvæði 53. og 56. gr. um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veiti einstaklingum þjónustu á grundvelli samstarfsverkefnis ríkisins, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð samkvæmt ákvæði til bráðabirgða o.s.frv. Mér finnst mikilvægt og ég vona að hv. velferðarnefnd fari mjög vel yfir þau atriði sem lúta að starfsmönnunum, kjörum þeirra og starfsaðstæðum. Þegar vikið er út frá svona hefðbundnum ákvæðum eins um hvíldartíma og næturvinnutíma þá þarf að fara gætilega. Þarna er ekki um hálaunastörf að ræða. Ég tel mjög mikilvægt að starfsmenn sem vinna svona starf, í nánum tengslum við annan einstakling, hafi skýr mörk og það sé auðvelt fyrir þá að setja mörk í samskiptum og í vinnunni gagnvart einstaklingum.

Eins og ég sagði áðan þá tel ég þetta frumvarp vera mjög mikilvægt og ég vona að það fái góðan og hraðan framgang en vandaðan í hv. velferðarnefnd og hlakka til að fá það aftur inn til 2. umr.