144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Gert er ráð fyrir að samningarnir verði 61 árin 2015 og 2016, það verði ekki fjölgun á milli áranna 2015 og 2016, en þeim fjölgi um tíu á árinu í ár. Ég veit ekkert, verð bara að segja það einlæglega við spurningu hv. þingmanns að ég veit ekki hvort þetta er vanáætlað eða hvort nauðsynlegt er að fjölga samningunum og útvíkka eitthvað þau viðmið sem notuð eru, en mikilvægt er að hv. velferðarnefnd fari yfir það í vinnu sinni með frumvarpið.

Varðandi sveitarfélögin og stöðu þeirra þá vitum við auðvitað að sveitarfélögin eru misjafnlega í stakk búin til að veita góða þjónustu, en það er samstarf meðal sveitarfélaga þar sem þarf lágmarksfjölda íbúa til að vera með verkefnið sem snýr að þjónustu við fatlað fólk.

Við höfum talað um það áður í dag hversu mikilvægt það er að ríkið í samstarfi við sveitarfélögin búi til ákveðna ferla sem auðvelda fólki að flytjast á milli sveitarfélaga, að það sé ekki þannig að fatlaður einstaklingur sem nýtur þessarar mikilvægu þjónustu, að hún þurfi að falla niður eða einhver biðtími verði eða eitthvað slíkt í stöðunni, heldur verði farið eftir einhverjum ákveðnum ferlum sem henta bæði sveitarfélaginu og einstaklingnum.

Ég tel því mikilvægt að þegar Samband íslenskra sveitarfélaga kemur fyrir nefndina verði farið ítarlega í gegnum þau mál sem hv. þingmaður spurði um.